Ein kæra hefur verið lögð fram vegna líkamsárásar í strætóskýli í Kópavogi í gærkvöldi. Þetta staðfestir Þóra Jónasdóttir, stöðvarstjóri lögreglustöðvar 3 að Dalvegi, í samtali við mbl.is. Hún segir þolendur ekki hafa verið börn, en að einn einstaklingur hafi verið undir átján ára aldri.
Tilkynnt var til lögreglu um mann í annarlegu ástandi að ráðast að börnum í strætóskýli í gærkvöldi en maðurinn hafði hlaupið af vettvangi.
Lögreglan náði geranda sem nú liggur undir grun um líkamsárás og er málið til rannsóknar. Þá leitaði einn einstaklingur sem varð fyrir árásinni á slysadeild vegna minni háttar áverka í kjölfar atviksins, meiðsli viðkomandi hafi hins vegar ekki komið í ljós í fyrstu.
Þóra segir ekki rétt að atvikið hafi átt sér stað á Nýbýlavegi eins og fjölmiðlar hafa greint frá, en hún staðfestir að málið hafi komið upp í Kópavogi.
Guðmundur Heiðar Helgason, markaðs- og upplýsingafulltrúi Strætó, staðfestir við mbl.is að vagnstjóri Strætó hafi haft samband við lögreglu.