Meiri háttar uppbygging samgöngumannvirkja og vegakerfis stendur fyrir dyrum, segir Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, en fyrr í dag samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um samgönguáætlun áranna 2019 til 2023.
„Ef það fer fram sem horfir, og tillögur meirihlutans ná fram að ganga, er fram undan einhver mesta uppbygging samgöngumannvirkja og vegakerfis sem við höfum séð,“ segir Jón í samtali við mbl.is.
Hann boðar miklar breytingar á fáum árum þar sem tillagan felur í sér að framkvæmdum verði hraðað umfram það sem annars standi efni til. „Út á það ganga þessar hugmyndir okkar, að leysa úr vandamálum, fækka slysum og draga úr þessum háa samfélagslega kostnaði sem er vegna slysa og styðja við umhverfismarkmið ríkisstjórnarinnar,“ segir Jón.
Mikil umræða var um málið á þinginu sem snerist að mestu um veggjöld. Sögðu stjórnarandstæðingar m.a. að veggjöldin væru tegund skattheimtu og bitnuðu einkum á íbúum suðvesturhornsins. Spurður út í gagnrýnina, sem meðal annars kom frá Viðreisn sagði Jón:
„Þetta fólk talar fyrir skattlagningu þegar um er að ræða gjaldtöku til að flýta framkvæmdum. En sama fólk úr Viðreisn stendur fyrir álagningu innviðagjalda í höfuðborginni sem enn liggur ekki fyrir í hvað eigi að fara, en er þegar farið að hafa áhrif á fasteignaverð og dregur úr getu ungs fólks og fyrstu kaupenda til að fjárfesta í eigin íbúð,“ segir Jón.
Nokkur hiti var í nefndarmönnum umhverfis- og samgöngunefndar að loknum fundi í morgun. Á fundinum lét Bergþór Ólason Miðflokksmaður af formennsku í nefndinni og bar upp tillögu þess efnis að Jón Gunnarsson yrði formaður nefndarinnar. Sex greiddu atkvæði með formennsku Jóns og þrír á móti, en helmingur stjórnarandstöðufulltrúa greiddu atkvæði með tillögunni.
„Það er mikilvægt í þessu sambandi að það komist á vinnufriður í nefndinni. Við höfum ekki getað starfað eðlilega undanfarnar vikur vegna ósættis, en nú er búið að höggva á þann hnút,“ segir Jón.
Hann segir meirihlutaflokkana hafa fullan vilja til að standa við samkomulag sem gert var við minnihlutaflokkana um skiptingu formennsku í nefndum. „Þeir verða að koma sér saman um hvernig eigi að standa að þeirri mönnun. Þetta er lausn þar til annað er ákveðið,“ segir Jón. „Ef menn koma sér saman um aðra niðurstöðu síðar þá er opið fyrir það af hálfu meirihlutans.“
„Ég gef lítið fyrir gagnrýnina í þessari stöðu. Það er á ábyrgð okkar að tryggja eðlilega starfsemi í nefndum þingsins og þetta er þáttur í því,“ segir Jón. „Það þarf að vera samstarf innan minnihlutaflokkanna um þessa skipan, við gerum kröfu um að geta haldið áfram okkar vinnu og sinnt þeim skyldum sem við vorum kosin til að gegna sem þingmenn.“