Spila tölvuleiki í 54 mínútur á dag

86% Íslendinga á aldrinum 18 til 30 ára spila tölvuleiki …
86% Íslendinga á aldrinum 18 til 30 ára spila tölvuleiki og 62% þeirra spila þá vikulega eða oftar. AFP

Tveir af hverjum þremur Íslendingum 18 ára og eldri spila tölvuleiki og 41% þeirra spila þá vikulega eða oftar. Helmingur þeirra sem spilar notar til þess síma. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Gallup gerði fyrir Origo á tölvuleikjanotkun Íslendinga og kynntar voru í höfuðstöðvum Origo í tengslum við UT-messuna í dag.

86% Íslendinga á aldrinum 18 til 30 ára spila tölvuleiki og 62% þeirra spila þá vikulega eða oftar, en hlutfall þeirra sem spila fer lækkandi með aldri. Í elsta aldurshópnum, 61 árs og eldri, spila 48% tölvuleiki og 28% vikulega eða oftar.

Að meðaltali spila þeir sem spila tölvuleiki vikulega eða oftar í 54 mínútur á dag. Rétt rúmur fjórðungur spilar tölvuleiki innan við hálfa klukkustund á viku, en fjórðungur spilar í þrjár til sjö klukkustundir. 12% þeirra sem spila vikulega eða oftar spila tölvuleiki í meira en 14 klukkustundir á viku.

Þegar kemur að tækjum sem spilað er á er fólk í öllum aldurshópum, nema þeim elsta, líklegast til þess að spila tölvuleiki á símann sinn. Íslendingar í elsta aldurshópnum eru líklegastir til þess að spila tölvuleiki í borðtölvu en næstlíklegastir til þess að spila á spjaldtölvu, og raunar líklegastir allra aldurshópa til þess að spila tölvuleiki á spjaldtölvu.

Þegar litið er til spilunar á milli karla og kvenna er munurinn ekki mjög mikill, en 64% kvenna spila tölvuleiki og 41% vikulega eða oftar, á móti 67% og 44% karla. Konur spila hins vegar að meðaltali í fimm klukkustundir á viku en karlar í sjö.

Karlar eru einnig talsvert líklegri til þess að spila tölvuleiki á borð- og leikjatölvur á meðan konur eru líklegri til þess að spila á spjaldtölvur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka