Stuðla að hinseginvænu samfélagi

María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna '78, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra …
María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna '78, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirrituðu í dag samning þess efnis að samtökin sinni sértækri fræðslu, þjónustu og ráðgjöf er varða málefni hinsegin fólks. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Forsætisráðuneytið og Samtökin '78, hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi, hafa gert með sér samning um að samtökin sinni sértækri fræðslu, þjónustu og ráðgjöf er varða málefni hinsegin fólks. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna '78, undirrituðu samning þess efnis í Stjórnarráðinu. 

Í frétt á vef Stjórnarráðsins segir að samningnum er ætlað að stuðla að hinseginvænu samfélagi og auknum sýnileika hinsegin fólks. „Skal þjónusta þessi beinast annars vegar að hinsegin einstaklingum og aðstandendum þeirra og hins vegar að fagfólki í almannaþjónustu s.s. í opinberri stjórnsýslu og skólum.“ 

Stjórnvöld leggja ríka áherslu á jafnréttismál og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram það markmið hennar að Ísland verði í fremstu röð hvað varðar málefni hinsegin fólks. Í forsætisráðuneytinu er unnið að stefnumótun í málaflokkum og á yfirstandandi löggjafarþingi verður lagt fram frumvarp til laga um kynrænt sjálfræði og þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum hinsegin fólks. 

Samningurinn gildir frá 15. febrúar 2019 til 15. febrúar 2020 og greiðir forsætisráðuneytið Samtökunum '78 15 milljónir króna til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til. Árið 2018 voru fjárframlög ríkisins á grundvelli þjónustusamnings velferðarráðuneytisins og Samtakanna tvöfölduð úr 6 í 12 milljónir króna. Kveðið er á um að framkvæmd verkefna samkvæmt samningnum fari fram í nánu samráði við skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert