Tillaga um samgönguáætlun samþykkt

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Eggert

Þingsályktunartillaga um samgönguáætlun 2019-2023 var samþykkt á Alþingi í dag með 38 atkvæðum. Enginn greiddi atkvæði gegn tillögunni en átján sátu hjá við afgreiðslu hennar.

Þingmenn Samfylkingarinnar, Pírata og Viðreisnar greiddu atkvæði gegn málinu auk Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, en þingmenn stjórnarflokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, greiddu atkvæði með samþykkt tillögunnar auk þingmanna Miðflokksins sem voru í salnum auk þeirra Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar sem áður voru í Flokki fólksins.

Mikil umræða var um málið sem snerist að mestu um veggjöld. Stjórnarliðar sögðu breytingatillögur stjórnarandstæðinga, sem var hafnað í atkvæðagreiðslunni, vera sýndarmennsku og lýðskrum. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að legið hefði fyrir við afgreiðslu fjárlaga fyrir jól að ekki væri gert ráð fyrir fjármagni til þeirra framkvæmda sem til stæði að taka út úr samgönguáætlun og fjármagna með veggjöldum.

Stjórnarandstæðingar sögðu á móti að veggjöldin væru skattheimta, hugmyndir um þau væru illa eða lítt útfærðar og bitnuðu einkum á íbúum suðvesturhornsins og þeim sem minna hefðu á milli handanna. Meiri umræða þyrfti að fara fram um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert