Býður sig ekki fram til varaformanns

Edward H Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, á flokksráðsfundi í dag.
Edward H Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, á flokksráðsfundi í dag. mbl.is/​Hari

Edward H. Huijbens, varaformaður Vinstri grænna, býður sig ekki fram til embættis varaformanns á landsfundi hreyfingarinnar í október í haust, en hann flytur til Hollands í næstu viku. Edward greindi frá þessu í ræðu sinni á afmælisflokksráðsfundi VG í dag, en hann hefur hlotið stöðu prófessors og yfirmanns 35 manna rannsóknarteymis í menningarlandfræði við Wageningen-háskóla í Hollandi. 

„Ég mun áfram sinna af elju störfum mínum sem varaformaður. Líkt og til þessa mun ég vinna gegnum netið og síma og frómt frá sagt er ferðalagið frá Hollandi til Reykjavíkur oft á tíðum einfaldara en Akureyri-Reykjavík, sér í lagi að vetri og stundum jafnvel ódýrara,“ sagði Edward.

Flokksráðsfundur VG var haldinn á Grand Hóteli í dag.
Flokksráðsfundur VG var haldinn á Grand Hóteli í dag. mbl.is/​Hari

„Fjölskyldan kemur með mér í haust en við munum engu að síður halda heimili hér á landi einnig. Því er fyrirsjáanlegt að ég verði í nokkuð tíðum ferðum heim fram á haustið. Hinsvegar er ljóst að svona breyting á högum er ekki góð fyrir varaformann til langs tíma litið,“ sagði hann og upplýsti um að hann myndi ekki bjóða sig fram á landsfundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert