Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Michael R. Pompeo, er á leið til Íslands í næstu viku. Hér mun hann eiga fund með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Munu þau ræða málefni norðurslóða og fyrirhugaða formennsku Íslands í norðurskautsráðinu auk vaxandi efnahagssamskipta ríkjanna tveggja. Þetta kemur fram í dagbók ráðherrans fyrir næstu viku.
Pompeo mun verða í Evrópu 11.-15. febrúar en hann mun fyrst fara til Búdapest, þaðan fer hann til Bratislava, Varsjár og Brussel. Þaðan fer hann til Íslands og verður hér á landi föstudaginn 15. febrúar.
Í Ungverjalandi á hann fund með forsætisráðherra landsins sem og utanríkisráðherra en málefni fundarins eru samstarf í varnar- og öryggismálum, orkumál og málefni Úkraínu. Eins mun Pompeo ræða við þá um áhrif Rússa og Kínverja í Evrópu og nauðsyn þess að styrkja vestræna samvinnu.
Í Slóvakíu á Pompeo fund með forseta landsins, forsætis- og utanríkisráðherra þar sem öryggismál verða rædd. Formennska Slóvakíu í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) auk fleiri málefna.
Síðar sama dag mun Pompeo fara til Póllands þar sem varnar- og öryggismál verða rædd á fundi utanríkisráðherra ríkjanna. Í Brussel á Pompeo fundi með fulltrúum Evrópusambandsins og víðtækt samstarf Bandaríkjanna og ESB. Þar á meðal varðandi Venesúela og á fleiri sviðum.