Ágúst Ólafur mun óska eftir veikindaleyfi

Ágúst Ólafur Ágústsson.
Ágúst Ólafur Ágústsson. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, mun óska eftir veikindaleyfi frá störfum á Alþingi. Tveir mánuðir eru síðan Ágúst til­kynnti um tveggja mánaða leyfi frá störf­um vegna áminn­ing­ar sem hann fékk frá trúnaðar­nefnd flokks­ins.

Hann greinir frá þessu í færslu á Facebook. Þar segist Ágúst hafa notað síðustu tvo mánuði til að endurskoða líf sitt og að hann hafi lokið fyrsta mánuði af áfengismeðferð hjá SÁÁ og að sú meðferð standi enn yfir.

Ágúst var áminntur af trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar vegna framkomu sinnar í garð konu í byrjun síðasta sumars. Hann áreitti hana kyn­ferðis­lega og þegar hún hafnaði hon­um ít­rekað fór hann sær­andi orðum um hana. 

Ágúst segir á Facebook að hann hafi sýnt af sér óforsvaranlega hegðun og fyrir hana, og þann dómgreindarbrest, skammist hann sín og iðrist. 

Hjálpin sem hann hafi fengið hjá SÁÁ hafi komið honum í skilning um þá afneitun sem hann hafi verið í gagnvart sjúkdómnum. „Áfengi var farið að hafa mjög neikvæð áhrif á líf mitt og það er sömuleiðis sárt að vita til þess að ég hef valdið öðrum vanlíðan. Áfengisvandi minn er vitaskuld engin afsökun fyrir hegðun minni og ég ber fulla ábyrgð á mínum gjörðum,“ skrifar Ágúst.

Það er fátt sem mig langar meira en að vinna í þágu réttlátara samfélags en ég þarf að setja heilsu mína og meðferð í forgang. Ég mun því óska eftir því að fara í veikindaleyfi frá störfum mínum á Alþingi á meðan ég vinn að því að ná bata. Tíminn mun leiða í ljós hvenær ég muni taka aftur sæti á þingi,“ skrifar Ágúst og vonast til að fólk sýni þeirri ákvörðun skilning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert