Ömurlegt mál sem gæti reynt á keðjuábyrgð

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ. mbl.is/Styrmir Kári

Mál rúmenskra verkamanna sem grunur leikur á að séu í nauðungarvinnu hjá starfsmannaleigu á höfuðborgarsvæðinu kann að vera það fyrsta sem reynir á keðjuábyrgð sem sett var inn í lög um starfsmannaleigur á síðasta ári.

Þetta segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, í samtali við mbl.is. Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að rúmenskir verkamenn sem starfa eða störfuðu í byggingariðnaði á vegum starfsmannaleigunnar Menn í vinnu ehf. hefðu stigið fram. Þeir hafi ekki fengið greidd þau laun sem þeim ber og er komið fyrir mörgum saman við þröngan kost í ólöglegu íbúðarhúsnæði í Kópavogi.

Keðjuábyrgðin var innleidd í breytingum á lögum um starfsmannaleigur á síðasta ári. Samkvæmt lögunum bera notendafyrirtæki nú ábyrgð á vangoldnum lágmarkslaunum og öðrum vangreiðslum vegna starfsmanna starfsmannaleigu. Með öðrum orðum, fyrirtæki sem hefur starfsmenn í vinnu á vegum starfsmannaleigu er skuldbundið til þess að ganga inn í skyldur starfsmannaleigunnar. Ef fyrir liggur að starfsmenn hafi ekki fengið greidd þau laun sem þeim ber er hægt að beina kröfunni að fyrirtækinu sem leigði þá.

Tveir verktakar þegar haft samband

Aðspurður hvaða fyrirtæki hafi fengið starfsmenn frá viðkomandi starfsmannaleigu segir Halldór að kallað hafi verið eftir upplýsingum um þá þjónustusamninga sem voru gerðir. Tveir aðilar sem höfðu haft þessa menn í vinnu hjá sér hafi þó haft samband við sig eftir að fjallað var um mál rúmensku verkamannanna í kvöldfréttum í gær. Í báðum tilfellum hafi verið um að ræða lítil byggingafyrirtæki og segist Halldór hafa heyrt af fleiri smáum byggingafyrirtækjum sem hafi starfsmenn í vinnu frá viðkomandi starfsmannaleigu.

Málið er nú statt inni á borði ASÍ og heldur Efling utan um það að undirbúa launakröfur fyrir hönd mannanna. Þar muni reyna á fyrrnefnda keðjuábyrgð.

Keðjuábyrgð gerir notendafyrirtæki skuldbundið til þess að ganga inn í …
Keðjuábyrgð gerir notendafyrirtæki skuldbundið til þess að ganga inn í skyldur starfsmannaleiga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fólk trúir ekki að svona gerist á Íslandi

Halldór fór sjálfur á vettvang í gær eftir að rúmensku verkamennirnir höfðu haft samband við ASÍ. Það hafi verið örþrifaráð þar sem allir vegir séu þeim lokaðir. Voru aðstæður þeirra skoðaðar í húsnæði við Hjallabrekku og Dalveg í Kópavogi og voru aðstæður ömurlegar að sögn Halldórs.

„Þessar aðstæður sem þessir menn búa við og þeirra lýsingar eru þannig að þetta er bara hreint ógeð. Þetta eru ekki mannabústaðir. Þeim er holað þarna mörgum saman við ógeðfelldar aðstæður. Ég er alveg viss um að venjulegt fólk trúir því ekki að svona hlutir séu yfirleitt að gerast á Íslandi. Menn halda að þetta sé bara í útlöndum, en því miður þá þrífst svona starfsemi hér eins og víða annars staðar,“ segir Halldór.

Verið er að leita að öðru og betra úrræði fyrir mennina og óskað hefur verið eftir því við lögreglu að hafa gát á þessu húsnæði ef mönnunum yrði hótað eða reynt yrði að henda þeim út.  

Rúmensku verkamennirnir störfuðu í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu.
Rúmensku verkamennirnir störfuðu í byggingariðnaði á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Vísvitandi reynt að fela málið

Fjallað var um mál rúmensku verkamannanna í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í haust. Aðspurður hvort hefði verið hægt að grípa inn í fyrr segir Halldór að þau gögn sem Vinnumálastofnun hafi fengið í hendurnar hafi verið eftir bókinni. Það væri ekki fyrr en mennirnir sjálfir stíga fram, sem gerist núna, að hin hliðin fer að birtast.

„Þeir fullyrða að þeir hafi fengið greidd lítil sem engin laun, það sé verið að taka af þeim greiðslu fyrir alls kyns hluti og að þetta sé nánast bara hálfgert þrælahald. Þeir voru í þeirri stöðu að þurfa að treysta því að úr þessum málum leysist. En það að þeir skuli síðan gefast upp og ganga svona fram segir náttúrulega að málið er grafalvarlegt.“

Auk ömurlegs aðbúnaðar og vangoldinna launa segir Halldór að eitthvað annað og verra kunni að koma upp á yfirborðið. Þessi starfsmannaleiga sé afurð af annarri starfsmannaleigu sem varð gjaldþrota á síðasta ári og lenti í alls kyns málum, eins og Halldór orðar það.

„Þetta eru aðilar sem við höfum átt í ágreiningi við áður. Þau opinberu gögn sem þetta fyrirtæki hefur skilað inn virðast í lagi við fyrstu sýn. Spurningin er hvort það séu raunverulegir pappírar eða hvort þeir séu bara framleiddir til þess að villa um fyrir okkur og öðrum opinberum aðilum. Þeir sem eru að stunda svona brotastarfsemi á vinnumarkaði, hvort sem er hér eða erlendis, eiga það sameiginlegt að vera orðnir mjög faglegir í sínum vinnubrögðum,“ segir Halldór.

En er þessi grunur um skjalafals kominn inn á borð lögreglu?

„Við höfum bent lögreglu á að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að kanna þau mál frekar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert