Frumvarp til laga og þingsályktunartillaga sem snúa að lögræðislögum hafa verið lögð fram á Alþingi. Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, leggur til að bætt verði í lögin ákvæði um fyrirframgefna ákvarðanatöku og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir pírati leggur til heildarendurskoðun á lögunum.
Frumvarp Hönnu Katrínar snýr að því að virða vilja fólks sem svipta þarf sjálfræði vegna geðfatlana. Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir Hanna Katrín það skref í að virða mannréttindi þessa fólks auk þess sem rannsóknir hafi sýnt að slíkt hafi meðferðargildi og jákvæð áhrif.
„Hluti af því sem felst í orðinu nauðung er að verið er að gera hluti þvert á vilja fólks. Ef fólk fær tækifæri til að lýsa vilja sínum og fara í gegnum ferlið án þess að sjúkdómurinn trufli veit það að það þarf að fara að þeim vilja. Við það dregur úr líkum á misskilningi við nánustu aðstandendur og dregur úr nauðung eins og dæmi hafa sýnt,“ segir Hanna Katrín Friðriksson sem leggur fram breytingu á lögunum í tengslum við mikla umræðu um geðfatlanir og mannréttindi ýmissa jaðarhópa.