Á brimdreka í mannlausri eyðimörk

Gott er að fara yfir ferðaáætlunina við kvöldroðann í Namibíu.
Gott er að fara yfir ferðaáætlunina við kvöldroðann í Namibíu. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar ég frétti að það ætti að reyna að „kæta“ meðfram strönd Namib-eyðimerkurinnar þá stóðst ég ekki mátið,“ segir Höskuldur Tryggvason, Höddi, í samtali við mbl.is en hann hefur nýlokið tíu tíma flugi frá Namibíu til Frankfurt og bíður eftir næstu vél til Íslands þegar blaðamaður nær af honum tali.

Hödda og Halldóri Meyer, félaga Hödda úr sportinu, tókst á dögunum að ferðast tæplega fimm hundruð kílómetra leið þar sem þeir og fleiri ofurhugar fóru á „brimdrekaflugi“ (e.kite surf) meðfram strönd Namib-eyðimerkurinnar í Namibíu. Ferðin tók tvær vikur, þar af sjö daga og sjö nætur í eyðimörkinni.

Vinirnir Höddi og Halldór eru sjóaðir brimdrekakappar.
Vinirnir Höddi og Halldór eru sjóaðir brimdrekakappar. Ljósmynd/Aðsend

Á öldum hafsins og eyðimerkurinnar

„Kite surf“, sem blaðamaður þýðir sem brimdrekaflug, er framkvæmt þannig að brimdrekakappinn styðst við upplásinn flugdreka og rennir sér á hafsins öldum með brimbretti undir fótunum. Höddi hefur stundað sportið um árabil og hefur ferðast víða um heim til þess að sinna áhugamálinu. Með Hödda og Halldóri í Namibíuferðinni voru fimm aðrir brimdrekakappar frá fjórum löndum, Þýskalandi, Venesúela, Brasilíu og Bandaríkjunum ásamt aðstoðarfólki sem sá um að aka og elda fyrir kappana en ekki minna en fimm fullbúnir jeppar dugðu til verksins.

Eins og áður segir ferðuðust Höddi og félagar um fimm hundruð kílómetra leið meðfram og yfir eyðimörk þar sem voru engir vegir og því eina leiðin að ferðast annað hvort á öldum hafsins eða eyðimerkurinnar.

Að nota vindorkuna til að renna sér á brimbretti krefst …
Að nota vindorkuna til að renna sér á brimbretti krefst einbeitingar og leikni, sérstaklega ef það á að gera í marga daga. Ljósmynd/Aðsend

Engin þorp, bæir eða hús

„Namibía er rosalega fallegt land. Það var áður þýsk nýlenda og enn gætir töluverðra þýskra áhrifa í landinu,“ segir Höddi. Hann og félagar hans flugu til höfuðborgarinnar Windhoek hvaðan þeir keyrðu til Sossusvlei í austurhluta eyðimerkurinnar. Þar skoðuðu þeir m.a. hin frægu „dauðu tré“ sem hafa staðið dauð undanfarin sjö hundruð ár, án þess þó að grotna niður. Ferðinni var næst heitið til Luderitz, syðsta hluta Namib-eyðimerkurinnar, þar sem brimdrekaflugferðin hófst. 

Hin dauðu tré hafa verið dauð í um 700 ár.
Hin dauðu tré hafa verið dauð í um 700 ár. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekkert í þessari eyðimörk. Það eru engin þorp, engir bæir eða hús. Við vorum eina fólkið þarna í mörg hundruð kílómetra radíus,“ segir Höddi. „Að hluta til erum við að „kæta“ og að hluta að keyra,“ bætir hann við en þar sem a.m.k. þarf um tólf til fimmtán hnúta vindhraða til þess að geta „kætað“ hafi ekki verið unnt að gera það alla daga. Þeir hafi þó náð að „kæta“ fjóra af sjö dögum. „Við kætuðum svona rúmlega helminginn af þessari strandlengju.“

Hinar gríðarstóru sandöldur Sossusvlei.
Hinar gríðarstóru sandöldur Sossusvlei. Ljósmynd/Aðsend

Höddi segir þó að það hafi verið litlu minna ævintýri að keyra yfir eyðimörkina. „Þetta er bara fært mjög öflugum jeppum. Maður er virkilega að keyra upp og niður sandöldur. Stundum var hægt að keyra meðfram ströndinni, það er þegar það var einhver strönd og fjara, en mest þurftum við að vera bara í sandöldunum. Það var algjört ævintýri.“ Þessu ævintýri hafi vitaskuld fylgt nokkur óhöpp en allt hafi gengið stórslysalaust fyrir sig. „Það velti enginn en menn festu sig nokkrum sinnum.“

Góður jeppi er þarfaþing í ferð yfir mannlausa eyðimörk.
Góður jeppi er þarfaþing í ferð yfir mannlausa eyðimörk. Ljósmynd/Aðsend

Selir og sæljón syntu í kring

„Náttúrufegurðin þarna er gríðarleg. Þessi eyðimörk er stórkostleg upplifun út af fyrir sig,“ segir Höddi sem segir að þrátt fyrir að það sé sjaldgæft að sjá spendýr á þessum slóðum hafi á vegi þeirra félaga hafi m.a. orðið jackal-dýr, oryx-dádýr og springbok-dádýr, „og mörg hundruð þúsund sela og sæljóna,“ bætir Höddi við. „Þau voru auðvitað forvitin, höfðu aldrei séð svona áður. Þau eltu okkur og syntu í kringum okkur.“

Höddi segir framandi dýr þó ekki vera nauðsynleg til að sinna brimdrekafluginu enda stundi hann það allan ársins hring hér heima á Fróni. „Á þessum árstíma erum við líka mikið að „snjó-kæta,“ segir Höddi léttur í lund og bætir við að það komi stundum fyrir að kapparnir „snjó-kæti“ fyrri part dags, t.a.m. á Mosfellsheiði eða í Bláfjöllum, og taki svo törn í öldunum við Gróttu síðar um daginn.

Að neðan má sjá myndband og fleiri myndir úr ferðinni.

View this post on Instagram

Este video es solo una muestra de lo que es Namibia. Un pais realmente impresionante. Se los recomiendo!!! Recorrimos de sur a norte todo el desierto de Namibia acampando en lugares espectaculares frente al mar. Salimos sin ningun percance, no me quiero ni imaginar un accidente en ese desierto. El desierto tiene aproximadamente unos 600 kms de largo. Era impresionante ver como todos los dias cambiaba el paisaje. En las noches no podiamos dejar nada afuera de la carpa por que venian animales. Lo que mas me gustaba era navegar con las miles de focas que se encuentran en la costa y el rustiqueo por el desierto. El grupo inmejorable y con muy buen nivel de kite. La comida buenisima, jamas imagine que iba a comer tan bien. Todo realmente excelente! Sin duda alguna es el mejor viaje que he hecho en mi vida. Gracias a @Kitearmada_ por toda la organizacion y por haber hecho posible esta expedicion. Ahhhh y somos los pioneros en el mundo en realizar esta expedicion!!!

A post shared by Henrique Ulivi (@hulivi) on Feb 8, 2019 at 3:31pm PST

Okkar maður í góðum gír á afrískri strönd.
Okkar maður í góðum gír á afrískri strönd. Ljósmynd/Aðsend
Þó að í eyðimörk sé dýralífið oft fábrotið urðu á …
Þó að í eyðimörk sé dýralífið oft fábrotið urðu á vegi Hödda ýmis glæsileg dýr. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert