„Þegar ég frétti að það ætti að reyna að „kæta“ meðfram strönd Namib-eyðimerkurinnar þá stóðst ég ekki mátið,“ segir Höskuldur Tryggvason, Höddi, í samtali við mbl.is en hann hefur nýlokið tíu tíma flugi frá Namibíu til Frankfurt og bíður eftir næstu vél til Íslands þegar blaðamaður nær af honum tali.
Hödda og Halldóri Meyer, félaga Hödda úr sportinu, tókst á dögunum að ferðast tæplega fimm hundruð kílómetra leið þar sem þeir og fleiri ofurhugar fóru á „brimdrekaflugi“ (e.kite surf) meðfram strönd Namib-eyðimerkurinnar í Namibíu. Ferðin tók tvær vikur, þar af sjö daga og sjö nætur í eyðimörkinni.
„Kite surf“, sem blaðamaður þýðir sem brimdrekaflug, er framkvæmt þannig að brimdrekakappinn styðst við upplásinn flugdreka og rennir sér á hafsins öldum með brimbretti undir fótunum. Höddi hefur stundað sportið um árabil og hefur ferðast víða um heim til þess að sinna áhugamálinu. Með Hödda og Halldóri í Namibíuferðinni voru fimm aðrir brimdrekakappar frá fjórum löndum, Þýskalandi, Venesúela, Brasilíu og Bandaríkjunum ásamt aðstoðarfólki sem sá um að aka og elda fyrir kappana en ekki minna en fimm fullbúnir jeppar dugðu til verksins.
Eins og áður segir ferðuðust Höddi og félagar um fimm hundruð kílómetra leið meðfram og yfir eyðimörk þar sem voru engir vegir og því eina leiðin að ferðast annað hvort á öldum hafsins eða eyðimerkurinnar.
„Namibía er rosalega fallegt land. Það var áður þýsk nýlenda og enn gætir töluverðra þýskra áhrifa í landinu,“ segir Höddi. Hann og félagar hans flugu til höfuðborgarinnar Windhoek hvaðan þeir keyrðu til Sossusvlei í austurhluta eyðimerkurinnar. Þar skoðuðu þeir m.a. hin frægu „dauðu tré“ sem hafa staðið dauð undanfarin sjö hundruð ár, án þess þó að grotna niður. Ferðinni var næst heitið til Luderitz, syðsta hluta Namib-eyðimerkurinnar, þar sem brimdrekaflugferðin hófst.
„Það er ekkert í þessari eyðimörk. Það eru engin þorp, engir bæir eða hús. Við vorum eina fólkið þarna í mörg hundruð kílómetra radíus,“ segir Höddi. „Að hluta til erum við að „kæta“ og að hluta að keyra,“ bætir hann við en þar sem a.m.k. þarf um tólf til fimmtán hnúta vindhraða til þess að geta „kætað“ hafi ekki verið unnt að gera það alla daga. Þeir hafi þó náð að „kæta“ fjóra af sjö dögum. „Við kætuðum svona rúmlega helminginn af þessari strandlengju.“
Höddi segir þó að það hafi verið litlu minna ævintýri að keyra yfir eyðimörkina. „Þetta er bara fært mjög öflugum jeppum. Maður er virkilega að keyra upp og niður sandöldur. Stundum var hægt að keyra meðfram ströndinni, það er þegar það var einhver strönd og fjara, en mest þurftum við að vera bara í sandöldunum. Það var algjört ævintýri.“ Þessu ævintýri hafi vitaskuld fylgt nokkur óhöpp en allt hafi gengið stórslysalaust fyrir sig. „Það velti enginn en menn festu sig nokkrum sinnum.“
„Náttúrufegurðin þarna er gríðarleg. Þessi eyðimörk er stórkostleg upplifun út af fyrir sig,“ segir Höddi sem segir að þrátt fyrir að það sé sjaldgæft að sjá spendýr á þessum slóðum hafi á vegi þeirra félaga hafi m.a. orðið jackal-dýr, oryx-dádýr og springbok-dádýr, „og mörg hundruð þúsund sela og sæljóna,“ bætir Höddi við. „Þau voru auðvitað forvitin, höfðu aldrei séð svona áður. Þau eltu okkur og syntu í kringum okkur.“
Höddi segir framandi dýr þó ekki vera nauðsynleg til að sinna brimdrekafluginu enda stundi hann það allan ársins hring hér heima á Fróni. „Á þessum árstíma erum við líka mikið að „snjó-kæta,“ segir Höddi léttur í lund og bætir við að það komi stundum fyrir að kapparnir „snjó-kæti“ fyrri part dags, t.a.m. á Mosfellsheiði eða í Bláfjöllum, og taki svo törn í öldunum við Gróttu síðar um daginn.
Að neðan má sjá myndband og fleiri myndir úr ferðinni.