Embætti landlæknis er kunnugt um eitt atvik þar sem barn var lagt inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítalans með geðrofseinkenni sökum slíms, sem ýmist er keypt eða heimagert, og er vinsælt hjá börnum. Frá þessu var greint í kvöldfréttum RÚV.
Neytendastofa varaði nýverið við slími sem inniheldur of mikið af bórinu eða bórati sem getur borist inn í líkamann í gegnum húð. Neytendastofa hefur í tvígang gefið út viðvörum vegna þessa, síðast í gær.
Heimagert slím getur reynst hættulegt ef notaður er linsuvökvi við slímgerðina þar sem í honum er bór. Ef matarsóda er síðan bætt við verða efnahvörf og til verður bórsalt.
Alma D. Möller landlæknir sagði í kvöldfréttum RÚV að slímið hafi eitrandi áhrif þegar það fer inn í húðina. Þekktar eiturverkanir eru samkvæmt vefsíðu Landlæknis vegna bórats [...] m.a. húðerting með útbrotum (jafnvel mikill roði og blöðrur), skjálfti, flog, höfuðverkur, meltingartruflanir, þunglyndi og örlyndi.
Alma segir að einnig sé hægt að greina einkenni frá miðtaugakerfi eins og „höfuðverk, kvíða, þunglyndi, jafnvel ofskynjanir og einkenni sem hreinlega geta líkst geðrofi“.
Í tilfelli barnsins sem Alma greindi frá fann það fyrir einkennum sem samræmast geðrofi, til dæmis ofskynjunum. Barnið náði bata á þremur til fjórum vikum eftir að það hætti að handfjatla slím.