Alls leituðu 115 á heilsugæslur og bráðamóttökur í síðustu viku vegna inflúensulíkra einkenna. Það er aukning frá vikunum á undan, en inflúensan er nokkuð seinna á ferðinni nú en fyrri ár.
Enn er lítið um innlagnir á Landspítala vegna staðfestrar inflúensu. Þetta kemur fram í samantekt Embættis landlæknis.
Flestir þeirra, sem greinast með inflúensu eru með inflúensu A(H1N1) og í þeim hópi er fólk á öllum aldri. Nokkrir hafa greinst með inflúensu af öðrum A-stofni, sem heitir A(H3N2) og eru það helst eldri borgarar. Tveir hafa greinst með inflúensu af B-stofni það sem af er vetri.