Tekjur Reykjanesbæjar af staðgreiddu útsvari launþega jukust um 1,5 milljarða milli áranna 2017 og 2018 og námu um 9,9 milljörðum.
Með því er Reykjanesbær fjórða tekjuhæsta sveitarfélag landsins í þessu efni. Til samanburðar var það í sjötta sæti 2017. Reykjavík hefur sem fyrr langhæstu útsvarstekjurnar. Þær námu um 72,3 milljörðum í fyrra sem er um 43% meira á nafnvirði en 2014.
Þrjú sveitarfélög höfðu rétt tæpa 10 milljarða í útsvarstekjur: Akureyri, Garðabær og Reykjanesbær. Er útlit fyrir að sex sveitarfélög hafi yfir 10 milljarða í útsvarstekjur í ár í fyrsta sinn í sögunni.
Í fréttaskýringu um tekjur sveitarfélaga í Morgunblaðinu í dag segir Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tekjuaukninguna í takt við hækkandi laun í landinu.