Tóku upp tónlist undir berum himni

Fyrsta upptakan undir berum himni var í Hvalfirði, en þar …
Fyrsta upptakan undir berum himni var í Hvalfirði, en þar þurftu tónlistarmennirnir að ylja sér milli þess sem tekið var upp.

Um fjörutíu tónlistarmenn frá New York í Bandaríkjunum sem dvöldu hér á landi síðasta haust hefur nú hafið birtingu myndbanda sem tekin voru upp á ferðalagi þeirra um landið þar sem þeir tóku upp tónlist í íslenskri náttúru víðsvegar um landið. Hópurinn heldur úti síðunni Apartment Sessions á myndbandssíðunni YouTube.

Meðal viðkomustaða var Surtshellir í Hallmundarhrauni.
Meðal viðkomustaða var Surtshellir í Hallmundarhrauni.

Myndböndin eru tekin upp á þekktum stöðum hérlendis, m.a. í Hvalfirði og við fossinn Faxa í Tungufljóti. Þá lék hópurinn tónlist í Surtshelli, í Akranesvita, í Skagastrandarkirkju, á skemmtistaðnum Húrra í Reykjavík og í gistiplássi hópsins í Myrkholti, nærri Geysi.

Inga María Hjartardóttir, tónlistarkona, var tónleikaferðarstjóri hópsins meðan á dvölinni stóð, en hún kynntist stórum hluta hópsins við tónlistarnám í Boston í Bandaríkjunum.

„Þetta fólk býr flest í New York, en við vorum flest í sama tónlistarskóla í Boston, Berklee College of Music, sem er einn sá besti í heimi. Þetta er samansafn af ótrúlega kláru fólki úr þeim skóla. Þar kynntist ég fjórum krökkum úr hópnum og þegar ég heyrði af því að þau væru á leið til Íslands setti ég mig strax í samband við þau,“ segir Inga María, en hópurinn safnaði fyrir ferðinni á hópfjármögnunarvefnum Indiegogo og tókst að safna þremur til fjórum milljónum króna fyrir gistingu, bílaleigubílum og öðrum nauðsynjum.

Við fossinn Faxa í Tungufljóti
Við fossinn Faxa í Tungufljóti

Veðurfarið áskorun, en gott heilt yfir

Við upptökurnar voru aðstæður oft krefjandi og þótt veður hafi verið milt stærstan hluta ferðalagsins, var kalt á köflum að sögn Ingu Maríu. Hópurinn dvaldi hér á landi í tíu daga og var dagskráin stíf. Á daginn var ferðast og tónlistin tekin upp og á kvöldin var æft fyrir upptökur næsta dags.

Við fossinn Faxa í Tungufljóti. Tónlistarmennirnir þurftu að nota sköpunargáfuna …
Við fossinn Faxa í Tungufljóti. Tónlistarmennirnir þurftu að nota sköpunargáfuna til þess að útvega rafmagn og búa um hnúta að öðru leyti í náttúrunni.

„Þetta þróaðist þannig að ég varð tónleikaferðalagsstjóri fyrir þau á Íslandi. Það kom sér vel af því einn af þessum fjörutíu hafði komið hingað áður og hinir vissu í raun ekki hvað þau væru að fara út í, þannig séð. Þau vissu hvað þau ætluðu að gera, en aðstæðurnar voru stundum krefjandi. Til að byrja með var tekið upp í Hvalfirði og hitamælirinn í bílnum sýndi núll gráður. Aftur á móti var mikið rok, þannig það var mun kaldara,“ segir Inga María, en hljóðfæraleikararnir brugðu á það ráð að stinga höndum í vasa, halda utan um hitapoka og hjúfra sig undir teppi til að halda hita á fingrunum á milli þess sem tekin voru upp myndbönd.

Hópnum lánaðist að sjá norðurljósum bregða fyrir á himni. Tónlistarmennirnir …
Hópnum lánaðist að sjá norðurljósum bregða fyrir á himni. Tónlistarmennirnir tóku lagið meðan þau léku um himinhvolfið.

„Einn daginn fórum við á Akranes, heimabæinn minn, og þar var mikið rok. Sem betur fer tókum við upp inni í Akranesvita, þannig það kom ekki að sök,“ segir Inga María, en önnur áskorun fyrir hópinn var að tryggja aðgang að rafmagni fyrir hin ýmsu tæki og tól sem notuð voru við spilamennskuna. Sólarrafhlöður og bílarafgeymar komu sér vel í þessum tilgangi.

Leika á hljóðfærin við óvenjulegar aðstæður

Aðspurð segir Inga María að hópurinn sé ekki fastmótuð hljómsveit í hefðbundnum skilningi.

„Í fyrsta lagi er hægt að segja að hópurinn sé ein fjölskylda. Hann virkar á þann veg að þeir komast sem komast og síðan er það besta gert úr því sem er hverju sinni. Það eru til dæmis miklu fleiri „ New York sem eru hluti af hópnum sem höfðu ekki tök á því að koma hingað,“ segir hún. „Það eru alltaf sömu fjórir forsprakkarnir og restin samanstendur af fólki sem spilar með þegar það kemst,“ segir hún og nefnir að hugmyndin með hópnum sé að taka upp tónlist á óvenjulegum stöðum og við óvenjulegar aðstæður.

Oft var þröngt á þingi þegar tekið var upp innanhúss, …
Oft var þröngt á þingi þegar tekið var upp innanhúss, enda hópurinn stór. Þröngt mega sáttir sitja.

„Hingað til hefur hópurinn tekið upp í pínulitlum íbúðum í Brooklyn, lestarvögnum og á Hrekkjavöku. Þetta var fyrsta utanlandsferðin og örugglega sú fyrsta af mörgum. Þetta heppnaðist svo ótrúlega vel að þetta verður örugglega gert aftur,“ segir hún.

Skildu sátt við Ísland og náttúruperlurnar

Spurð hvort tónlistarfólkinu hafi líkað landið segir Inga María að það sé líklega vægt til orða tekið. Allir í hópnum hafi verið himinlifandi með ferðina. „Þeim fannst þetta alveg geggjað. Samstarfið gekk ótrúlega vel og það að vera á Íslandi held ég að hafi fært þetta upp á annað plan. Þeim fannst þetta mikil upplifun fyrir utan það að verkefnið heppnaðist vel,“ segir hún og nefnir að öllum í hópnum hafi verið sérstaklega í mun að umgangast náttúruna af virðingu og passað upp á að skilja ekki eftir sig ummerki, rusl eða annað slíkt.

Að neðan má sjá tónlistarmyndband hópsins sem tekið er upp við fossinn Faxa, en þar var flutt lagið On And Ever Onward með Dirty Projectors og Björk. Hér má síðan sjá önnur tónlistarmyndbönd hópsins úr Íslandsferðinni.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert