Ekki var talið nauðsynlegt að fá mat Persónuverndar á bréfsendingum Reykjavíkurborgar í aðdragenda sveitarstjórnarkosninganna 2018, vegna þess Vísindasiðanefnd Háskólans hafði þegar samþykkt rannsókn Háskólans og Þjóðskrá hafði samþykkt að veita aðgang að persónuupplýsingum, að því er segir í fréttatilkynningu Reykjavíkurborgar.
„Borgin og þeir aðilar sem ákvörðunin fjallar um eru nú að kynna sér niðurstöðuna sem er ítarleg. Mannréttindastjóri borgarinnar í samvinnu við persónuverndarfulltrúa og borgarlögmann eru að vinna minnisblað og nánari greiningu á ákvörðuninni,“ segir í fréttatilkynningunni.
Tilkynningin er send í tengslum við úrskurð Persónuverndar um notkun Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands á persónuupplýsingum frá Þjóðskrá Íslands til þess að auka kosningaþátttöku í sveitarstjórnarkosningum 2018.
„Jafnframt þarf að fara yfir málið með Háskóla Íslands, samstarfsaðila borgarinnar í málinu, þar sem ákvörðun Persónuverndar snýr einnig að honum,“ segir í tilkynningunni.
Sagt er frá því að af fimm tillögum sem samþykktar voru í borgarráði í tengslum við verkefnið snúi úrskurður Persónuverndar að framkvæmd þriðju og fjórðu tillögu.
Þriðja tillagan sneri að dreifingu upplýsinga um borgarstjórnarkosningarnar 2018. Fram kemur í tilkynningu borgarinnar að ábyrgðaraðili þeirrar tillögu hafi verið upplýsingadeild borgarinnar.
Fjórða tillagan gekk út á framkvæmd rannsóknar á kosningahegðun í samstarfi við Háskóla Íslands. Tilkynningin segir ábyrgðaraðila þeirrar tillögu vera mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
„Erindi var sent til Persónuverndar þann 3. maí 2018 þar sem óskað var eftir heimild Persónuverndar til að senda smáskilaboð á kjósendur sem kusu í fyrsta sinn samkvæmt ábendingu [P]óst- og fjarskiptastofnunar. Svar barst við erindinu þann 14. maí. Var það mat Persónuverndar að vinnsla Háskólans á smáskilaboðum uppfyllti meginreglur þágildandi 7. gr. laga nr. 77/2000 um gæði gagna og vinnslu,“ að því er segir í tilkynningu borgarinnar.
Hins vegar var talið eð ekki væri nauðsynlegt að fá mat Persónuverndar á fyrirhuguðum bréfsendingum í tengslum við rannsóknina. „þar sem Vísindasiðanefnd Háskólans hafði þegar samþykkt rannsókn Háskólans og Þjóðskrá hafði samþykkt að veita aðgang að listum um þá hópa sem senda átti bréf.“
Þann 14. maí óskaði Persónuvernd eftir afriti allra þeirra bréfa sem fyrirhugað var að senda vegna rannsóknarinnar og 17. maí sendi borgin bréf sem stíluð voru á unga kjósendur og önnur gögn er sneru að rannsókninni.
Persónuvernd áréttaði hins vegar daginn eftir að engin gögn bárust stofnuninni um bréf sem senda átti innflytjendum og konum 80 ára og eldri. Sagði borgin það hafa verið mistök sökum þess að þau bréf hafi ekki verið tengd umræddri rannsókn, bréfin voru þó send til Persónuverndar 19. maí.
Ákveðið var af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands að stöðva framkvæmd rannsóknarinnar þar til úrskurður Persónuverndar lægi fyrir. Á grundvelli úrskurðarins verður ekki haldið áfram með þá vinnu, að því er fram kemur í tilkynningu borgarinnar.
Úrskurður Persónuverndar kemur Önnu Kristinsdóttur, mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar, á óvart „í ljósi fyrri samskipta við stofnunina,“ segir í tilkynningunni. Þá segir að Anna taki úrskurðinum alvarlega og að mikilvægt sé að bregðast við með faglegum hætti.
„Verkefnið var allt unnið af starfsmönnum Reykjavíkurborgar og fræðafólki í Háskóla Íslands þar sem okkur gekk það eitt til að auka kosningaþátttöku og fræðast um kosningahegðun. Stjórnmálamenn höfðu þannig enga aðkomu að verkefninu eftir samþykkt borgarráðs,“ segir Anna.
Haft er eftir Önnu að henni þyki ásakanir um kosningasvindl í tengslum við umræður um úrskurðinn vera „alvarlegar og meiðandi“.