Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur innsiglað skemmtistaðinn Shooters í Austurstræti. Lögreglan framkvæmdi átta húsleitir í umdæminu seint í fyrrinótt og í gærmorgun, m.a. á skemmtistað í miðborginni, vegna grunsemda hennar um umfangsmikla brotastarfsemi. Ekki hefur fengist staðfest hvort lokun Shooters tengist þeirri rannsókn en lögreglan mun ekki tjá sig um rannsóknina umfram það sem kom fram í tilkynningu í morgun.
Í umfjöllun Vísis um málið er haft eftir starfsmönnum á bar við hliðina á Shooters að þeir hafi fyrst tekið eftir innsiglinu í gær. Þá kemur fram á vef Fréttablaðsins að blaðið hafi heimildir fyrir því að innsiglun staðarins tengist húsleitum lögreglu um helgina.
Í húsleitunum átta var lagt hald á gögn, búnað og fjármuni, en öll málin tengjast. Í tilkynningu lögreglu segir að höfð hafi verið afskipti af tuttugu og sex einstaklingum og voru tíu þeirra færðir á lögreglustöð til yfirheyrslu, en síðan sleppt úr haldi að henni lokinni, að því er segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni.
Rannsóknin er samvinnuverkefni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og skattrannsóknarstjóra.