Aðalmeðferð fer að nýju fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun í CLN-málinu svokallaða, en það hefur einnig verið nefnt Chesterfield-málið. Samkvæmt áætlun dómsins mun aðalmeðferð taka fjóra daga. Er þetta í annað skiptið sem aðalmeðferð málsins fer fram í héraði, en það hefur í raun þrisvar verið tekið fyrir af dómstólnum. Sakborningar voru sýknaðir í fyrra skiptið, en Hæstiréttur ógilti þann dóm síðar og fór fram á að málið yrði rannsakað betur vegna nýrra upplýsinga.
Málið er eitt af svokölluðum hrunmálum, en í því voru stjórnendur Kaupþings ákærðir fyrir umboðssvik með því að hafa lánað 508 milljónir evra frá ágúst til október 2008 til tveggja félaga sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf af Deutsche bank sem tengd voru skuldatryggingaálagi Kaupþings. Sagði saksóknari að markmiðið hefði verið að lækka skuldatryggingaálag bankans.
Málið hefur farið fram og aftur í dómskerfinu, en þegar það var tekið fyrir fyrst í héraðsdómi voru allir hinna ákærðu sýknaðir. Var málinu áfrýjað til Hæstaréttar, en áður en það var tekið fyrir þar komu fram nýjar upplýsingar um að Deutsche bank hefði greitt þrotabúi Kaupþings stóran hluta upphæðarinnar, eða 425 milljónir evra.
Þar sem ástæður greiðslunnar lágu ekki fyrir taldi Hæstiréttur að rannsaka þyrfti þessi atriði betur þar sem það gæti haft þýðingu við mat á því hvort skilyrðum umboðssvika væri fullnægt við ákvörðun um refsihæð ef skilyrði fyrir sakfellingu yrðu talin fyrir hendi. Var sýknudómurinn og meðferð málsins í héraði því ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar á ný. Hóf ákæruvaldið því rannsókn á málinu að nýju með það fyrir augum að fá glögga mynd af ástæðum þess að Deutsche bank greiddi þessar upphæðir til Kaupþings og félaganna tveggja.
Niðurstaða héraðsdóms þegar málið var aftur komið þangað á borð í fyrra var hins vegar að ákæruvaldið hefði ekki rannsakað sem skyldi þau atriði sem Hæstiréttur taldi að rannsaka þyrfti. Var málinu því vísað frá héraðsdómi, en ákæruvaldið kærði þá niðurstöðu til Landsréttar.
Landsréttur úrskurðaði svo um að héraðsdómi bæri að taka málið fyrir efnislega og er meðal annars vísað til þess að ákæruvaldið telji ekki að samkomulagið um greiðslurnar frá Deutsche bank hafi þýðingu fyrir grundvöll málsins né við mat á því hvort skilyrði umboðssvika séu uppfyllt.
Í málinu eru ákærðir þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.