CLN-málið enn og aftur í héraðsdómi

Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, …
Frá aðalmeðferð í héraðsdómi í Chesterfield-málinu. F.v.: Hreiðar Már Sigurðsson, Almar Þór Möller hdl. og aðstoðarmaður verjanda, Sigurður Einarsson og Gestur Jónsson hrl. og verjandi Sigurðar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Aðalmeðferð fer að nýju fram fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun í CLN-málinu svokallaða, en það hefur einnig verið nefnt Chesterfield-málið. Samkvæmt áætlun dómsins mun aðalmeðferð taka fjóra daga. Er þetta í annað skiptið sem aðalmeðferð málsins fer fram í héraði, en það hefur í raun þrisvar verið tekið fyrir af dómstólnum. Sakborningar voru sýknaðir í fyrra skiptið, en Hæstiréttur ógilti þann dóm síðar og fór fram á að málið yrði rannsakað betur vegna nýrra upplýsinga.

Málið er eitt af svo­kölluðum hrun­mál­um, en í því voru stjórn­end­ur Kaupþings ákærðir fyr­ir umboðssvik með því að hafa lánað 508 millj­ón­ir evra frá ág­úst til októ­ber 2008 til tveggja fé­laga sem keyptu láns­hæfistengd skulda­bréf af Deutsche bank sem tengd voru skulda­trygg­inga­álagi Kaupþings. Sagði sak­sókn­ari að mark­miðið hefði verið að lækka skulda­trygg­inga­álag bank­ans.

Málið hef­ur farið fram og aft­ur í dóms­kerf­inu, en þegar það var tekið fyr­ir fyrst í héraðsdómi voru all­ir hinna ákærðu sýknaðir. Var mál­inu áfrýjað til Hæsta­rétt­ar, en áður en það var tekið fyr­ir þar komu fram nýj­ar upp­lýs­ing­ar um að Deutsche bank hefði greitt þrota­búi Kaupþings stór­an hluta upp­hæðar­inn­ar, eða 425 millj­ón­ir evra.

Þar sem ástæður greiðslunn­ar lágu ekki fyr­ir taldi Hæstirétt­ur að rann­saka þyrfti þessi atriði bet­ur þar sem það gæti haft þýðingu við mat á því hvort skil­yrðum umboðssvika væri full­nægt við ákvörðun um refsi­hæð ef skil­yrði fyr­ir sak­fell­ingu yrðu tal­in fyr­ir hendi. Var sýknu­dóm­ur­inn og meðferð máls­ins í héraði því ómerkt og mál­inu vísað heim í hérað til lög­legr­ar meðferðar á ný. Hóf ákæru­valdið því rann­sókn á mál­inu að nýju með það fyr­ir aug­um að fá glögga mynd af ástæðum þess að Deutsche bank greiddi þess­ar upp­hæðir til Kaupþings og fé­lag­anna tveggja.

Niðurstaða héraðsdóms þegar málið var aftur komið þangað á borð í fyrra var hins vegar að ákæru­valdið hefði  ekki rann­sakað sem skyldi þau atriði sem Hæstirétt­ur taldi að rann­saka þyrfti. Var mál­inu því vísað frá héraðsdómi, en ákæru­valdið kærði þá niður­stöðu til Lands­rétt­ar.

Lands­rétt­ur úr­sk­urðaði svo um að héraðsdómi bæri að taka málið fyr­ir efn­is­lega og er meðal ann­ars vísað til þess að ákæru­valdið telji ekki að sam­komu­lagið um greiðslurn­ar frá Deutsche bank hafi þýðingu fyr­ir grund­völl máls­ins né við mat á því hvort skil­yrði umboðssvika séu upp­fyllt.

Í málinu eru ákærðir þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka