Guðni Ásgeirsson var í dag útnefndur skyndihjálparmaður ársins 2018 en hann bjargaði manni sem hafði fengið hjartaáfall á hlaupastíg í Reykjavík. Guðni kom að manninum þar sem hann hafði lagst í jörðina, veitti honum hjartahnoð og stjórnaði aðgerðum á vettvangi með mikilli yfirvegun.
Í fyrstu hélt Guðni að maðurinn sem hafði verið að skokka væri að teygja en eitthvað við aðstæðurnar fékk Guðna til að stöðva reiðhjól sitt og kanna ástandið á manninum. Maðurinn hafði þá fengið hjartaáfall og farið í hjartastopp.
„Ég stökk af hjólinu og athugaði lífsmörk hjá honum. Sló aðeins í hann, reyndi að tala við hann og nudda bringspalirnar á honum. Hann var ekki með meðvitund og ég bað vegfaranda um að hringja í Neyðarlínuna,“ segir Guðni við mbl.is.
„Ég hófst strax handa við að hnoða manninn,“ segir Guðni sem hnoðaði þar til sjúkraflutningamenn komu á vettvang. Maðurinn fékk eitt rafstuð frá sjúkraflutningamönnunum og var kominn til meðvitundar þegar hann var borinn upp í sjúkrabílinn. „Það var það síðasta sem ég vissi áður en ég fór af vettvangi,“ segir Guðni.
Á spítalanum var hann settur í aðgerð og hefur náð fullum bata í dag þökk sé hárréttum viðbrögðum Guðna á vettvangi. „Einhvern veginn þegar maður kemur í svona aðstæður þá „sónar“ maður inn í svona aðstæður og ég virðist hafa brugðist hárrétt við.“
Maðurinn sem Guðni bjargaði hringdi í hann sólarhring síðar. „Hann þakkaði mér fyrir lífsbjörgina. Það var mikill léttir að heyra í honum og hversu brattur hann var,“ segir Guðni.
Hann tekur fram að hver sem er geti lent í svipuðum aðstæðum og hann og því sé gríðarlega mikilvægt að kunna skyndihjálp. Guðni fór á skyndihjálparnámskeið í Verkmenntaskólanum á Akureyri fyrir mörgum árum og segir að reglulega séu haldin stutt námskeið í vinnunni hjá honum.
„Það er betra að gera eitthvað en að gera ekki neitt,“ segir Guðni.
Guðni vill líka koma á framfæri þakklæti til þeirra sem aðstoðuðu hann þennan dag. Einstaklingar á vettvangi aðstoðuðu hann við að hringja í 112 og framkvæma hjartahnoð. Einnig komu lögregluþjónar að honum og bentu honum á að þessi lífsreynsla gæti haft áhrif á hann seinna enda mikið sjokk að lenda í þessum aðstæðum.