Fá þarf einhvern utan borgarkerfisins til að skoða mál Persónuverndar og Reykjavíkurborgar, að mati Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa og oddvita Sjálfstæðisflokks. „Ein leiðin er að Umboðsmaður Alþingis skoði þetta eða sveitarstjórnarráðuneytið,“ segir Eyþór í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
„Það gagnast lítið að borgin skoði sjálfa sig því hún er aðili máls. Það gagnast jafn lítið og þegar borgarstjóri var að skoða pósthólfið sitt.“ Eyþór reiknaði með að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks ræddi málið í dag.
„Þetta er fordæmalaust að það séu brotalamir hjá stærsta sveitarfélagi landsins í svona tilraunamennsku. Þarna var reynt að hafa áhrif á kjósendur, það var farið með rangt mál í útsendu efni og svo var ekki öll sagan sögð þegar Persónuvernd spurði. Okkur er ekki sæmandi að fara svona með opinbert vald.“
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og oddviti VG, sagði að ef pottur hefði verið brotinn þegar valdir hópar voru hvattir til að mæta á kjörstað í borgarstjórnarkosningunum 2018 þyrfti að bregðast við því og tryggja að það endurtæki sig ekki. Hún sagði að stjórnmálamenn treystu embættismönnum og starfsfólki borgarinnar. „Rannsóknir sýna að þátttöku fólks af erlendum uppruna, kvenna yfir áttrætt og ungs fólks í kosningum er ábótavant. Við viljum hvetja fólk til að nýta kosningarétt sinn,“ sagði Líf. Hún sagði að verkefnið hefði verið unnið í samstarfi við Persónuvernd en svo virtist sem einhver brotalöm hefði orðið á samskiptum stofnana. „Það er ekki um kosningasvindl að ræða heldur held ég að það sé frekar um samskiptabrest að ræða,“ sagði Líf. „Það er fráleitt að vinstriflokkarnir hafi notað þetta til að auka fylgi sitt. VG fékk 2.700 atkvæði og þetta var greinilega ekki lausnin fyrir okkur eða Samfylkinguna, sem líka missti fylgi!“