Í alþjóðlegum samanburði á lífskjörum verður að líta til fleiri þátta en verðlags því mestu skiptir hver kaupgetan er gagnvart vörum og þjónustu. Samanburður verðlags og launa á milli landa sýnir að lífskjör á Íslandi eru meðal þeirra allra bestu í heiminum.
Þetta kemur fram í umfjöllun á vef Samtaka atvinnulífsins sem ætlað er að svara niðurstöðum nýlegrar könnunar verðlagseftirlits ASÍ sem sýndi að matvörukarfa í Reykjavík var 67% dýrari en í Helsinki í byrjun desember.
Í umfjöllun SA segir að ekki séu tíðindi að verðlag á Íslandi sé hátt í samanburði við önnur lönd, og að alkunna sé að verðlag í ríkjum þar sem laun eru há sé einnig hátt.
Samkvæmt samanburði Hagstofu Evrópusambandsins á verðlagi innan sambandsins og EFTA-ríkjanna séu mat- og drykkjarvörur 55% dýrari en að meðaltali, en þar, og í Noregi, Sviss og Lúxemborg, séu greidd hæst laun.
Þá væri meðaltímakaup eftir tekjuskatt 55% hærra á Íslandi en í Finnlandi, samkvæmt upplýsingum OECD, og verðlag á matar- og drykkjarvöru 30% samkvæmt hagstofu ESB. Kaupmáttur launa gagnvart mat- og drykkjarvörum sé þannig 20% hærri á Íslandi en í Finnlandi.
Samkvæmt reiknivél velferðarráðuneytisins verji barnlaus Íslendingur 34.600 kr. á mánuði í kaup á mat og drykk. Í Finnlandi ætti sambærilegur einstaklingur að verja 30% lægri fjárhæð til kaupa á þessum vörum, þ.e. 26.500 kr. Í ljósi hærra tímakaups á Íslandi en í Finnlandi taki það meðal Íslending því 8 klukkustundir að vinna fyrir mánaðarlegum útgjöldum til mat- og drykkjarvara en Finna 9,5 klukkustundir að vinna fyrir sömu vörukörfu.
„Samanburður verðlags og launa milli landa sýnir að lífskjör á Íslandi eru meðal þeirra allra bestu í heiminum. Samanburður umræddrar könnunar ASÍ á vöruverði nokkurra landbúnaðarafurða á Norðurlöndum gefur hið gagnstæða til kynna, þ.e. að á Íslandi séu lífskjör ekki góð í Norðurlandasamanburði. Það er sem betur fer ekki rétt.“