Börn eiga ekki að vera tilraunadýr

Hermundur Sigmundsson, prófessor í sálfræði, er ekki sammála þeim áherslum …
Hermundur Sigmundsson, prófessor í sálfræði, er ekki sammála þeim áherslum sem Menntmálamálstofnun leggur á lestrarhraða. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lesskilningur varðar okkur öll og framtíð íslensks samfélags. Leshraði er ekki það sem á að setja í forgang heldur það að börn lesi sem mest og það gerum við með því að leggja aukna áherslu á færni þeirra, ekki hraða, segir Hermundur Sigmundsson, prófessor í sálfræði við Tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík.

Hermundur undrast þá miklu áherslu sem lögð er á lestrarhraða hjá Menntamálastofnun og bendir á þann mikla kostnað sem fylgir því að mæla lestrarhraða allra grunnskólabarna þrisvar á ári. Alls 120 þúsund mælingar á hverju ári. Byrjað var á þessum mælingum haustið 2017 og fyrstu niðurstöður frá september 2017 til september 2018 sýndu að börnin lásu að meðaltali rúmlega einu orði meira á mínútu eftir árið. Hann segist vonast til þess að lesskilningur þeirra hafi aukist meira en efast um það enda byggi skilningur ekki á hraða líkt og Menntamálastofnun virðist halda.  

Hermundur vísar til þess að Menntamálastofnun segi að ekki sé verið að mæla leshraða heldur lesfimi „en hvað felst í lesfimi?“ spyr hann. Mælingarnar byggi á leshraða, það er hversu mörg orð eru lesin á mínútu, lestrarnákvæmni, hversu mörg orð eru rétt lesin á mínútu og hrynrænum þáttum tungumálsins.

Getur leitt til streitu og kvíða

Í raun snúist þetta um hversu mörg orð barnið les rétt á mínútu. Foreldrar og barnið fá síðan uppgefið hver séu viðmiðin fyrir viðkomandi skólastig og hvar barnið standi. Þetta geti leitt til kvíða og streitu barna og þau missi áhugann á að lesa sér til ánægju. Það veldur því að þau fá minni þjálfun og þar af leiðandi minni lesskilning.

„Ég tel óþarft að um samræmdar mælingar þrisvar á ári með tilheyrandi kostnaði sé að ræða. Miklu nær væri að mæla hraðann tvisvar meðan á grunnskólanáminu stendur, t.d. í lok fjórða bekkjar og níunda bekkjar.  Annars staðar á Norðurlöndunum er lestrarhraði barna mældur ef þau eiga í miklum lestrarerfiðleikum og margir þættir sem viðkoma lestri eru skoðaðir sem gæti haft áhrif á framhaldið. Það er hvort auka þurfi þann stuðning sem barnið fær í skólanum,“ segir Hermundur.

Flestir eru sammála um að tvö atriði séu mikilvægust þegar kemur að lestri, segir Hermundur. Annars vegar umskráning/bókstafslestur (decoding að geta lesið út úr orðinu. „Við getum tekið orðakeðjur sem dæmi þar sem börn eru beðin um að brjóta samsett orð upp í einstök orð. Hvað getur þú búið til mörg orð úr orðakeðjunni? Þetta er mjög auðvelt próf og tekur aðeins fjórar mínútur að leggja það fyrir. Að brjóta lestrarkóðann sem er ekki ósvipað því sem var gert í lestrarheftinu Gagn og gaman á sínum tíma. Þessu tengt er hljóðalestur. Því þetta þarf að fara saman – að kunna bókstafinn og hljóðin,“ segir Hermundur.  

Hins vegar er þjálfun lestrar og lesskilningur: skilur barnið það sem það er að lesa? Þetta er eitthvað sem verður að fara saman – bókstafslestur og lesskilningur – og það verður að vera samræmi hér á milli. Því ef of mikil áhersla er á annan þáttinn þá getur það haft áhrif á hinn, segir Hermundur.

Lestur snýst um færni ekki hraða, segir Hermundur Sigmundsson.
Lestur snýst um færni ekki hraða, segir Hermundur Sigmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mihaly Csikszentmihalyi, prófessor í sálfræði, segir mikilvægt að nota jákvæða styrkingu, „gulrót“, til að fá einstaklinga til að takast á við áskoranir. Hann nefnir líka að lykilatriði er að áskoranir passi hverjum einstaklingi, til að efla innri áhugahvötina og til að einstaklingar öðlist leikni. Þannig er mikilvægt hlutverk foreldra, kennara og þjálfara að finna passlegar áskoranir fyrir einstaklinga svo að þeir komist inn í það sem við köllum flæði, segir í grein sem Hermundur skrifaði í Sunnudagsmoggann í desember. 

Spurður út í þetta segir Hermundur að ef áskoranir eru í samræmi við færni verður til flæði og bestu aðstæður skapast til náms. En samræmi verður að vera til staðar því ef áskoranir eru of miklar er hætta á kvíða og ef áskoranir barnsins eru ekki nægjanlega miklar miðað við færni þess er hætta á að því leiðist.  

Nær að byggja upp bókasöfn

„Að mæla leshraða eða það sem MMS kallar lesfimi hjá öllum grunnskólanemendum, 40 þúsund börnum, þrisvar á ári nær engri átt. Við erum að tala um fjárhagslegan kostnað sem fylgir mælingum sem þessum í stað þess að nota fjármunina frekar í að byggja upp bókasöfn og útgáfu á áhugaverðum og um leið fjölbreyttum bókum fyrir börn og ungmenni. Árangur íslenskra ungmenna í PISA-rannsókninni sýnir okkur svart á hvítu að okkur er ekki að fara fram og þau standa verr að vígi í öllum þremur greinunum sem prófaðar eru en hin Norðurlöndin: í lestri, náttúrufræði og stærðfræði,“ segir Hermundur. 

Mikið hefur verið talað um læsi og ekki síst unglingspilta. Ísland var neðst Norðurlanda í lesskilningi í PISA-könnuninni 2015 en var um miðjan hóp árið 2000. Nær þriðjung­ur fimmtán ára stráka á Íslandi get­ur ekki lesið sér til gagns sam­kvæmt niður­stöðum könn­un­ar­inn­ar. 

„Barn sem ekki er læst getur ekki leyst orðadæmi í stærðfræði. Það gefur auga leið. Hvaða vitleysa er þetta að leggja orðadæmi fyrir börn strax í öðrum bekk grunnskóla? Á þeim tíma er þó nokkur hluti þeirra illa læs eða ólæs. Ekki síst drengir og við verðum að miða lestrarkennsluna að því að draga úr þessum kynbundna lesskilningi hér á landi en það gerum við ekki með hraðlestrarprófum.“ 

Nánast öll samskipti í dag byggja á læsi

Læsi er grundvöllur undir nánast öll samskipti okkar, segir Hermundur og bendir á að í dag séu snjalltæki þau tæki sem flestir nota mest í að eiga í samskiptum við aðra. „Fólk er endalaust að senda skilaboð og lesa texta í símanum. Öll þessi samskipti þýða að þú þarft að hafa yfir að ráða færni til þess að lesa og skilja hvað þú ert að lesa. Öll þekkingarleit byggir á læsi í dag,“ segir Hermundur.

Hermundur hefur rætt um árangur Íslands í PISA-könnuninni við John Stein, prófessor við Magdelene College við Oxford-háskólann, en Stein hefur unnið með lestrarkennslu og lesblindu í hálfa öld. „Stein þekkir ágætlega til Íslands og hann benti strax á það augljósa  hrunið 2008,“ segir Hermundur en þá voru framlög til menntamála skorin niður. „Niðurskurður í menntamálum á árunum eftir hrun er farinn að hafa áhrif og hans mun gæta áfram,“ segir Hermundur.

Annað sem erlendir fræðimenn hafa bent á varðandi Ísland eru þær áherslur sem eru í íslensku þjóðfélagi. Mikið vinnuálag á foreldra skilar sér í minni samveru með börnum. Ekki bara það heldur koma börnin örþreytt heim að loknum íþróttaæfingum þannig að öll fjölskyldan er of þreytt fyrir samveru svo ekki sé talað um lestur sér til ánægju, segir Hermundur.

„Ég hef búið erlendis lengi og tek eftir þessu þegar ég kem hingað til lands. Það er þessi mikli hraði á öllu. Eða eins og einn norskur fræðimaður bendir á: Þið eruð að taka á móti milljónum ferðamanna ári. Einhverjir þurfa að sinna öllum þessum fjölda og hvað verður um börnin? Hver sinnir þeim?

Hvert er svar þeirra sem fara með menntamál á Íslandi? Jú, mælum leshraða barna. 120 þúsund mælingar á ári. Hvers vegna velur Menntamálastofnun að fara þessa leið? Aðferð sem ekki er notuð á hinum Norðurlöndum, ekki í Bretlandi og ekki í Ástralíu svo nokkur lönd séu nefnd,“ segir Hermundur sem hefur fjallað mikið um menntamál undanfarna áratugi.

Styrkjum rithöfunda í að skrifa góðar spennandi bækur fyrir börn …
Styrkjum rithöfunda í að skrifa góðar spennandi bækur fyrir börn og unglinga; styrkjum skólabókasöfn og bókasöfn í bæjarfélögum. mbl.is/Styrmir Kári

Lestur er ekki spretthlaup

Í grein sem Hermundur skrifaði í Sunnudagsmoggann um liðna helgi tekur hann dæmi af spretthlaupi. Hermundur segir lestur ekki snúast um að spretta úr spori heldur svipaða hugsun og býr að baki í skák. Að byrja á undirstöðunni.

„Við getum líkt mannganginum við að læra bókstafina og svo eftir því sem þú teflir oftar og færð áskoranir við hæfi færðu meiri skilning á skákinni. Eins og við sáum í heimsmeistaraeinvígi Magnusar Carlsen við Fabiano Caruana þar sem Carlsen sýndi svo vel hvað reynsla skiptir miklu máli. Þegar þeir tefldu hraðskák kom reynslan að góðu gagni og Carlsen var fljótari að hugsa en andstæðingurinn vegna þeirra þeirrar reynslu sem hann býr að. Carlsen bjó hins vegar ekki að þessum hraða þegar hann hóf að tefla heldur kom hraðinn með æfingunni. Þjálfun skilar árangri alveg sama hvort það er í lestri eða íþróttum,“ segir Hermundur.

Notum frekar fjármagn í að útbúa bækur af mismunandi erfiðleikastigi fyrir börn þar sem þau fá réttar áskoranir; styrkjum rithöfunda í að skrifa góðar spennandi bækur fyrir börn og unglinga; styrkjum skólabókasöfn og bókasöfn í bæjarfélögum. Eflum lestrarþjálfun og þar með lesskilning, sagði Hermundur meðal annars í grein sinni á sunnudaginn. 

Heikki Lyytinten, sem er einn af fremstu fræðimönnum Finnlands á sviði lestrar, segir að árangur finnskra ungmenna í PISA-rannsókninni byggi fyrst og fremst á góðum bókasöfnum. 
Bóksöfn eiga að vera samastaður fjölskyldunnar. Af hverju fer fjölskyldan ekki saman á bókasafnið á laugardögum? Fær sér kaffi eða kakó saman og velur sér bækur til að lesa í vikunni. Þetta er það sem Finnar gera og þetta er það sem Íslendingar ættu að gera. Að kveikja áhuga barna á bókum. Að bjóða upp á gott úrval bóka fyrir börn og ungmenni og ýta undir áhuga þeirra á lestri. Þessu fylgir lesskilningur og líklega lesa börn hraðar ef þau lesa mikið en það er ekki aðalmálið. Heldur að þú lesir á þeim hraða sem hentar þér. Ekki hraða sem hentar viðmiðum Menntamálastofnunar. Hvernig væri að hlusta og fara að ráðleggingum þeirra fræðimanna sem hafa mesta þekkingu á þessu sviði? Við eigum  ekki að sætta okkur við að börn okkar séu tilraunadýr í íslensku skólakerfi,“ segir Hermundur.

„Fyrstu niðurstöður frá september 2017 til september 2018 sýndu aukningu upp á 11 orð á 10 aldurshópa, eða 1,1 orð á hvern aldurshóp. 9. bekkur stóð í stað og 10. bekkur sýndi bætingu upp á tvö orð. Vonandi eru þetta ekki lýsandi tölur fyrir lesskilning. Það er líka vert að huga að því að u.þ.b. 30% af börnum kunna ekki að lesa eftir 1. bekk, samt er verið að prófa leshraða/lesfimi í þeim aldurshópi. Það má spyrja hvaða áhrif slíkar endurteknar mælingar hafi á áhuga hjá börnum og unglingum á lestri. Unglingur sem hefur lokið 10. bekk hefur farið í gegnum 30 mælingar á leshraða á 10 ára skólagöngu.

Ég velti því fyrir mér hverju þessi aukning, 1,1 orð á hvern aldurshóp, skilar í lesskilningi. Við munum væntanlega sjá það í næstu PISA-rannsókn. Því lestur snýst ekki um hraða heldur að skilja það sem maður les,“ segir Hermundur Sigmundsson prófessor í sálfræði við Tækni- og vísindaháskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert