Þrjú tilboð hafa borist en opnað var fyrir útboð vegna húss og lóðar fyrir Hús íslenskra fræða, Arngrímsgötu 5, Reykjavík, í gær. Fyrsta skóflustunga hússins var tekin í mars 2013 en verkið hefur verið í biðstöðu síðan það ár og stór hola minnir á óklárað verkið.
Hús íslenskra fræða mun hýsa fjölbreytta starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands.
Tilboð bárust frá Ístaki hf., Íslenskum aðalverktökum hf. og Eykt ehf. Öll tilboðin eru hærri en kostnaðaráætlun, sem er 3.753.850.000 krónur. Tilboð Ístaks er 4.519.842.188, en það er um 20% yfir áætlun, Íslenskra aðalverktaka 4.597.291.955 og Eyktar 5.096.909.801. Tilboðin eru í yfirferð hjá Framkvæmdasýslunni.
Hið nýja hús verður á þremur hæðum auk kjallara undir hluta þess. Opinn bílakjallari verður sunnan- og vestanmegin við húsið. Byggingin er sporöskjulaga og er formið brotið upp með útskotum og inngörðum. Að utan er byggingin klædd opnum málmhjúp. Byggingarmagn ofanjarðar verður um 5.038 fermetrar og stærð bílakjallara um 2.230 fermetrar.
Verkinu skal vera að fullu lokið í febrúar 2022.