„Þetta er í samræmi við okkar reynslu. Leiguverð hækkar og hækkar,“ segir Margrét Kristín Blöndal, formaður Samtaka leigjenda en að sögn Íbúðalánasjóðs hækkaði leiguverð á höfuðborgarsvæðinu meira en íbúðaverð á milli áranna 2017 og 2018.
Þetta var reiknað út samkvæmt þinglýstum leigu- og kaupsamningum sem liggja til grundvallar vísitölum sem Þjóðskrá gefur út.
„Við höfum talað fyrir því að það sé nauðsynlegt að setja verðþak á húsaleigu. Það hafa verið stjórnlausar hækkanir og þessar tölur undirstrika mikilvægi þess að komið verði böndum á leigumarkaðinn. Það þarf lög og reglur um hann,“ segir Margrét. Hún segir að mikil þörf sé fyrir hagkvæmt leiguhúsnæði. Til dæmis séu um 800 manns á biðlista hjá Félagsbústöðum, að því er fram kemur í umfjöllun um leigumálin í Morgunblaðinu í dag.