Sé miðað við markaðsvirði er Marel orðið fimmta stærsta fyrirtækið í sögu íslensku Kauphallarinnar, en markaðsvirði félagsins fór yfir 300 milljarða króna fyrr í vikunni í fyrsta sinn í sögu fyrirtækisins.
Virði félagsins í lok dags í gær var 303 milljarðar króna. Verðmætasta félag í sögu Kauphallarinnar er Kaupþing, en markaðsvirði þess náði 948,5 milljörðum þegar hæst stóð.
Í umfjöllun um Marel í Morgunblaðinu í dag segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, að sé leiðrétt fyrir verðbólgu hafi verðmæti félagsins í kauphöll 130 faldast frá upphafi. Þá er Marel nr. 104 í stærðarröðinni af 607 skráðum fyrirtækjum á aðalmörkuðum Nasdaq á Norðurlöndunum.