100 ára gild trygging

Viðskiptavinir í eina öld. F.v.: Hermann Björnsson, Jón Árni Jóhannsson …
Viðskiptavinir í eina öld. F.v.: Hermann Björnsson, Jón Árni Jóhannsson og Auður Daníelsdóttir. mbl.is/​Hari

100 ár eru liðin á morgun frá því að elsta vátryggingaskírteini íslensks tryggingafélags, sem enn er í gildi, var undirritað. Það var þegar Sjóvátryggingarfélag Íslands hf., sem nú heitir Sjóvá, gerði fyrsta tryggingasamning sinn og var hann við Jóhann Ólafsson & Co. um sjóvár- og farmtryggingu.

Félagið tryggði vörur í flutningi fyrir allt að 50.000 krónur með gufuskipi og allt að 10.000 krónur með segl- eða mótorskipi.

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár, og Auður Daníelsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og ráðgjafasviðs Sjóvár, heimsóttu Jóhann Ólafsson & Co og afhentu Jóni Árna Jóhannsyni, framkvæmdastjóra fyrirtækisins blóm í tilefni af 100 ára afmæli fyrstu og elstu vátryggingar Sjóvár. Þá ætlar Sjóvá að senda starfsfólki fyrirtækisins glaðning á föstudag í tilefni aldarafmælisins.

„Mér var boðið í 100 ára afmæli Jóhanns Ólafssonar & Co í október 2016. Þá vakti það athygli mína að sjá þetta tryggingaskírteini á heiðursstað uppi á vegg þar sem það blasti við öllum,“ sagði Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvár. „Sjóvá hélt upp á 100 ára afmæli sitt í fyrra og nú fögnum við 100 ára afmæli elsta vátryggingasamningsins, sem félagið gerði 15. febrúar 1919 og tryggingin er enn í gildi. Við viljum heiðra þetta langa og farsæla viðskiptasamband.“

Hermann sagði að bæði félögin hefðu haldið upp á þetta skírteini, enda sé þetta fyrsti tryggingasamningur um vörur í sjóflutningum sem gerður var á milli íslenskra fyrirtækja. „Við getum rakið viðskiptasögu margra okkar góðu viðskiptavina, stórra og þekktra fyrirtækja, marga áratugi aftur í tímann en það verður ekki lengra farið aftur en þetta því þarna var upphafið. Við erum ákaflega ánægð með samstarfið við Jóhann Ólafsson & Co., það hefur verið mjög farsælt og er gott og gaman að minnast þess núna,“ sagði Hermann.

Ætlaði að taka 100 ár!

100 ár eru liðin frá því að fyrirtækið Jóhann Ólafsson …
100 ár eru liðin frá því að fyrirtækið Jóhann Ólafsson & Co keypti tryggingu af Sjóvá sem enn er í gildi Hari


Jón Árni Jóhannsson, framkvæmdastjóri Jóhanns Ólafssonar & Co., er þriðji ættliðurinn sem stýrir fjölskyldufyrirtækinu. Afi hans, Jóhann Ólafsson, stofnaði fyrirtækið ásamt tveimur öðrum 14. október 1916 og stýrði því allt til dánardags 1963. Þá tók Jóhann J. Ólafsson, faðir Jóns Árna, við rekstri fyrirtækisins. Jón Árni tók við framkvæmdastjórninni árið 2009.

„Það kom tryggingasölumaður fyrir 2-3 árum og vildi gera okkur tilboð í tryggingar. Ég sýndi honum skírteinið og sagði að ég héldi að ég tæki allavega fyrstu hundrað árin hjá Sjóvá! Hann sagðist skilja það og ef hann hefði vitað þetta þá hefði hann sleppt því að koma,“ sagði Jón Árni.

Sjóvátryggingarfélag Íslands var stofnað 20. október 1918 og hóf starfsemi 15. janúar 1919. Á meðal stofnenda var Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti lýðveldisins. Eins og nafnið bendir til tók félagið í fyrstu eingöngu að sér sér sjóvátryggingar. Fljótlega varð það fyrsta íslenska tryggingafélagið til að bjóða upp á almenna vátryggingastarfsemi. Sjóvátryggingarfélagið sameinaðist Almennum tryggingum hf. árið 1989 í Sjóvá-Almennar tryggingar hf. en í daglegu tali er félagið kallað Sjóvá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert