Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti fyrir skömmu á Landspítalanum í Fossvogi með fjóra sem slösuðust í bílslysi á Suðurlandsvegi austan við Hjörleifshöfða fyrr í kvöld. Hálka var á veginum.
Samkvæmt heimildum mbl.is eru þrír alvarlega slasaðir og einn minna slasaður. Tveir bílar sem komu úr gagnstæðri átt rákust saman og sá þriðji keyrði út af til að koma í veg fyrir að lenda aftan á öðrum bílnum. Hinir slösuðu voru í bílunum sem rákust saman.
Veginum milli Mýrdalssands við Vík og Eldhrauns við Kirkjubæjarklaustur var lokað skömmu eftir slysið en hefur verið opnaður að nýju. Vinnu lögreglu og viðbragðsaðila á vettvangi slyssins lauk laust fyrir klukkan 22.
Fréttin hefur verið uppfærð.