Hótaði að skera mann á háls

Konan ógnaði Birni með hníf.
Konan ógnaði Birni með hníf. mbl.is/​Hari

Kona var handtekin um klukkan 18:00 í kvöld í Breiðholti eftir að hún ógnaði manni með hníf og hafði af honum myndavél. Konan var handtekin á staðnum og vistuð í fangageymslu lögreglu.

Stöðvarstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að konan verði yfirheyrð síðar í kvöld en maðurinn, Björn Ágúst Magnússon, segir í samtali við mbl.is að hann ætli að kæra árásarkonuna.

Hann var gangandi á leið heim til sín þegar konan kallaði á eftir honum. Björn sneri sér að henni og þá reyndi hún að taka af honum myndavél sem hann var með á sér.

„Hún togar í myndavélina mína og vill taka hana. Ég vil það ekki og þá dregur hún upp gulan dúkahníf og setur hann nálægt hálsinum á mér og segist ætla að skera mig ef ég skilji myndavélina ekki eftir,“ segir Björn og bætir við að hann hafi orðið mjög skelkaður.

„Ég var ofboðslega hræddur. Mér fannst eins og henni væri full alvara með þessu,“ segir Björn. Hann sleppti takinu af myndavélinni og konan hafði sig á brott, með vélina. „Ég var viss um að annars myndi hún skera mig og taka svo vélina.“

Björn hringdi í Neyðarlínuna og konan var handtekin í nágrenninu. Konan henti myndavélinni í jörðina og Björn veit ekki hversu mikið skemmd vélin er. Hann ætlar að leggja fram kæru vegna málsins.

Björn Ágúst Magnússon var gangandi á leið heim til sín …
Björn Ágúst Magnússon var gangandi á leið heim til sín þegar kona kallaði á eftir honum og ógnaði honum með dúkahníf þegar hann neitaði að afhenda myndavél sem hann var með á sér. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert