Tungumálareglur í íslenskum háskólum óljósar

Nemendur á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Mynd úr safni.
Nemendur á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Mynd úr safni. Ljósmynd/ Krist­inn Ingvars­son

„Þau eru fyrst og fremst að reyna að  mennta sig og styrkja sig og það er mikil seigla í hópnum,“ segir Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningafræðum á menntavísindasviði Háskóla Íslands, um erlenda nemendur í íslenskum háskólum, sem búsettir eru á Íslandi. Annað mál sé hins vegar hvort stuðningskerfi og kennsluhættir henti alltaf nemendunum.

Hanna kynnir rannsóknarverkefnið Væntingar og tækifæri innflytjenda á Íslandi til háskólamenntunar og áskoranir henni tengdar“ ásamt Kriselle Lou Suson Jónsdóttur aðstoðarrannsakanda á jafnréttisdeginum, sem fagnað er í dag í Veröld — húsi Vigdísar með málþingi sem ber yfirskriftina „Innflytjendur og háskólamenntun: Samfélagsleg ábyrgð og framtíðarsýn.“

Verkefnið er styrkt af Rannís, en auk verkefnisstjórans Hönnu og Kriselle eiga þau Börkur Hansen prófessor, doktorsnemarnir Artëm Ingmar Benediktsson, Anna Katarzyna Wozniczka og Susan Rafik Hama og Anh-Dao Tran nýdoktor einnig þátt. 

Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningafræðum á menntavísindasviði Háskóla Íslands.
Hanna Ragnarsdóttir, prófessor í fjölmenningafræðum á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Lítill munur gerður á skiptinemum og erlendum nemum

Rannsóknin tók til 41 nemanda, frá 23 mismunandi löndum í Evrópu, Asíu og Ameríku, sem stunduðu nám á BA- og BSc.-stigi í þremur háskólum á Íslandi. „Þetta eru nemendur af ólíkum kynjum og uppruna og með ólíka félagslega og efnahagslega stöðu. Þeir eru líka með ólíka fyrri menntun,“ segir Hanna og kveður hópinn hafa verið mjög fjölbreyttan.

Einnig voru tekin viðtöl við kennara, námsráðgjafa, stjórnendur og jafnréttisfulltrúa í skólunum. Meginþættir í niðurstöðunum sem kynntir verða á morgun eru reynsla af kennsluaðferðum, niðurstöður varðandi íslensku sem annað mál og svo reynsla af stuðningi. 

„Við höfum svo líka verið að greina stefnur háskólanna í málefnum nemenda af erlendum uppruna,“ segir Hanna og kveður ekki mikinn greinarmun gerðan hjá skólunum á erlendum skiptinemum og nemendum af erlendum uppruna sem eru búsettir hér á landi og hafa jafnvel verið það til lengri tíma.

„Þessum hópum er dálítið slengt saman í allri umgjörðinni og það þarf að skilja þá meira að,“ segir hún. Þótt hópur erlendra nema búsettra á Íslandi sé fjölbreyttur, þá er hann líka ólíkur skiptinemunum.

Háskólinn í Reykjavík. Mynd úr safni.
Háskólinn í Reykjavík. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óljósar reglur um hvaða tungumál má nota

„Almennt eru [erlendu nemendurnir] ánægðir með kennsluna og finnst hún nútímaleg og kennsluaðferðirnar hagnýtar,“ segir Hanna. Ástæða sé þó til að vekja athygli á öðrum þáttum, eins og óljósum reglum um hvaða tungumál megi nota í prófum og verkefnavinnu. „Það virðist fara eftir kennurum hvort þau mega skrifa á öðrum tungumálum og það er dálítið flókið fyrir þau að þurfa alltaf að vera að tala við einstaka kennara,“ segir hún. „Það þyrftu kannski að vera reglur í hverri deild.“

Fjöldi tungumála sem erlendu nemarnir þurfa að nota torveldar þeim oft námið. „Þau eru að læra á íslensku, námsefnið er svo mjög oft á ensku og síðan eru þau nota sitt eigið tungumál. Þannig að þau eru kannski að vinna með 3-4 tungumál í einu og þýða á milli.“ Hanna samsinnir að þetta flæki óneitanlega málin fyrir erlendu nemendurna og geri námið tímafrekara.

„Við bendum á að það þyrfti kannski að skerpa bæði stefnur og reglur [háskólanna] og líka að vera með ákveðið stuðningskerfi, t.d. þjónustu í sambandi við ritun.“

Ætti að nýta reynslu nemendahópsins í kennslunni

Þá sé full ástæða til að hafa í huga kennsluhættirnir þurfi að henta fjölbreyttum hópum. „Þannig að kennarar þurfa kannski að vera meira meðvitaðir um hversu fjölbreyttur hópur er að stunda nám og taka meira  tillit til hans,“ segir Hanna. Hún útskýrir að ýmsar kennsluaðferðir henti vel fjölbreyttum hópum, t.d. menningamiðaðir kennsluhættir þar sem áhersla er lögð á að byggja á þekkingu og reynslu nemendahópsins hverju sinni og nýta inn í kennsluna. „Það er ekkert endilega gert og þessu finnst okkur mega breyta.“

Væntingar nemenda til háskólanámsins voru þá misjafnar að sögn Hönnu. „Fólk kemur með svo ólíka reynslu, menntun og ólíkan uppruna, en í flestum tilfellum er fólk þó að reyna að fóta sig í menntunarumhverfi sem er ólíkt því sem að það er vant.“ Af þessum sökum séu væntingarnar líka misjafnar og námið ekki alltaf eins og nemendurnir hafi búist við.

„Þau eru fyrst og fremst að reyna að mennta sig og styrkja sig og það er mikil seigla í hópnum,“ segir Hanna og kveður erlendu nemendurna þurfa á hvatningu að halda líkt og aðrir nemar. „Þau eru oft að glíma við flókinn veruleika, m.a. mörg tungumál og eru þess vegna lengur að vinna vinnuna.“

Mikið brottfall erlendra nemenda úr framhaldskólum sé líka stórt vandamál sem smitist yfir á háskólastigið og það sé nokkuð sem þurfi að taka með í myndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert