Tveggja bíla árekstur á Suðurlandsvegi

Suðurlandsvegi milli Mýrdalssands og Eldhrauns hefur verið lokað vegna umferðaslyss.
Suðurlandsvegi milli Mýrdalssands og Eldhrauns hefur verið lokað vegna umferðaslyss. mbl.is/Jónas Erlendsson

Tveir bílar rákust saman á Suðurlandsvegi austan við Hjörleifshöfða við Blautukvísl á sjötta tímanum í dag. Lögreglan hefur óskað eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar á slysstað.

Veginum milli Mýrdalssands og Eldhrauns hefur verið lokað og búast má við að hann verði lokaður í tvær til þrjár klukkustundir. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi eru viðbragðsaðilar við vinnu á vettvangi og talsverð slys eru á fólki. Ökumenn og farþegar bifreiðanna eru erlendir ferðamenn. 

Uppfært klukkan 19:05: 

Þyrla Landhelgisgæslunnar lenti á slysstað rétt fyrir klukkan sjö og unnið er að því að koma slösuðum um borð. Í færslu lögreglunnar á Suðurlandi á Facebook kemur fram að það muni taka töluverðan tíma sökum áverka hinna slösuðu. 

Uppfært klukkan 19:51:

Fjórir voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi. Þrír eru alvarlega slasaðir en einn minna slasaður. 

 Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert