Kjartan Jónsson, Kristján Georg Jósteinsson og Kjartan Bergur Jónsson, sem ákærðir voru í innherjasvikamáli hjá Icelandair, voru allir sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Mennirnir þrír voru ákærðir vegna viðskipta sem Kristján Georg og Kjartan Bergur áttu með afleiður, í flestum tilfellum kaup- eða sölurétti í félaginu, en Kjartan er fyrrverandi forstöðumaður leiðastjórnunarkerfis Icelandair.
Í frétt Vísis um dómsuppkvaðninguna kemur fram að Kjartan Jónsson var dæmdur til 18 mánaða fangelsisvistar fyrir aðild sína að málinu. Hann var jafnframt eini sakborningurinn sem mætti í dómssal í dag. Dómarinn gerði einnig þá kröfu að tæplega ein milljón króna yrði gerð upptæk en fjárhæðin var á bankareikningi sem lagt var hald á við rannsókn málsins árið 2017.
Kristján Georg var dæmdur til þriggja ára og sex mánaða fangelsisvistar auk þess sem gerð var kraga um að félag hans, Fastrek, sem einnig var ákært í málinu sætti upptöku alls um 32 milljónum króna.
Kjartan Bergur hlaut fjögurra mánaða skilorðsbundinn dóm. Þá þarf hann að sæta upptöku á rúmlega 21 milljón króna.
Dómur héraðsdóms í heild sinni.