Knattspyrnufélag Reykjavíkur var stofnað 1899 og verður 120 ára á morgun, laugardaginn 16. febrúar. „Ekki mörg félög hérlendis eiga sögu sem nær til þriggja alda,“ segir Gylfi Dalmann Aðalsteinsson, formaður KR, en áfanganum verður fagnað með ýmsum hætti á árinu og byrjað á köku að loknu getraunakaffinu í fyrramálið.
Gylfi segir að þakka megi öflugu starfi sjálfboðaliða í öllum deildum gróskuna, en um sé að ræða um 20 ársverk á ári. „Góður vitnisburður slíks sjálfboðaliðastarfs er nýafstaðið þorrablót Vesturbæjar undir forystu KR-kvenna, en allur ágóði rennur til barna- og unglingastarfs KR,“ segir hann.
Á þriðja þúsund iðkendur á öllum aldri eru í 14 íþrótta- og félagsdeildum KR og fer fjölgandi. „Nýjasti hópurinn stundar rafleiki,“ segir Gylfi. Hann segir miklar kröfur gerðar til aðstöðu og æfingatíma og brýnt sé að bregðast við. „Kröfur eru stundum gerðar til íþróttafélaga, sem að langmestum hluta eru rekin af sjálfboðaliðum og sjálfsaflafé, eins og um leik- og grunnskóla sé að ræða sem eru á forræði sveitarfélaga. Ekki eru mörg fjölgreinafélög eins og KR í Reykjavík og það segir sig sjálft að þegar félag er með starfsemi í 14 íþrótta- og félagsdeildum er erfitt að verða við óskum allra um æfingatíma og aðstöðu.“
Sjá viðtal við Gylfa í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.