Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Michael R. Pompeo, kom til landsins nú á tólfta tímanum og lenti Boeing C-32-flugvélin í Keflavík. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, tók á móti Pompeo á vellinum.
Pompeo mun svo fara til Reykjavíkur með bílalest, en hann mun funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra í Hörpu. Því næst mun hann halda í ráðherrabústaðinn og funda með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Munu þau ræða málefni norðurslóða og fyrirhugaða formennsku Íslands í norðurskautsráðinu auk vaxandi efnahagssamskipta ríkjanna tveggja.
Búast má við umferðatöfum á stofnæðum á höfuðborgarsvæðinu vegna komu Pompeo.