Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt sex ummæli Tryggva Viðarssonar dauð og ómerk, en þau lét hann falla þegar Hlíðamálið svokallaða stóð sem hæst, en í umræddu máli voru tveir karlmenn grunaðir um að hafa nauðgað konum í íbúð í Hlíðunum.
Mikið uppþot varð í samfélaginu í kring um málið og voru karlmennirnir tveir sagðir hafa sérútbúið umrædda íbúð til brota sinna og að fórnarlömbin þeirra hefðu verið fleiri en eitt.
Tryggva var einnig gert að greiða mönnunum 350 þúsund krónur hvorum í miskabætur.
Fimm ummælanna sem héraðsdómur dæmdi dauð og ómerk í dag voru látin falla á Facebook en ein í frétt Pressunnar og eru eftirfarandi:
- „Hér eru helvítis ógeðin sem voru að nauðga og misþyrma með sérútbúna íbúð í Hlíðunum.“
- „Þessi viðrini voru ekki nafngreind eða myndbirt í blöðunum eins og aðrir með réttarstöðu grunaðra og ekki látnir sæta gæsluvarðhaldi á meðan á rannsókn stendur samt stafar samfélaginu meiri ógn af þessum gerpum en þeim sem eru með nokkrar plöntur heima hjá sér.“
- „Endilega deilið svo stelpur geti varað sig á þessum stórhættulegu einstaklingum.“
- „Ef þið sjáið þessa fávita endilega hifive a þá í smettið… Menn sem gera svona eru ekki að byrja sinn nauðgaraofbeldisferil.“
- „… Ef það tekst að hindra þó að ekki væri nema eina nauðgun í viðbót af hálfu þessara manna þá er markmiðinu náð.“
- „Magnús ég hef sögur frá fyrstu hendi frá fleiri en þessum stelpum sem þeir náðu að nauðga og misþyrma og á meðan þeir ganga lausir eru þeir hættulegir.“