Ekki fylgst með kílómetrafjöldanum

mbl.is/Hari

Engar sérstakar athugasemdir eru gerðar við það í skoðunarferli bíla hér á landi, þó að augljóst sé að kílómetrastaða bílsins sé röng. Bíla, sem til dæmis er búið að skipta um mælaborð í, er hægt að nota áfram sem bílaleigubíla, án þess að nokkrar athugasemdir séu við það gerðar af hálfu eftirlitsaðila.

Í febrúar árið 2011 var bifreið af gerðinni Suzuki Jimny, árgerð 2005, tekin til aðalskoðunar. Bíllinn var þá í eigu ALP hf., sem er með sérleyfi fyrir tvær alþjóðlegar bílaleigur hér á landi, Avis og Budget. Þá var búið að aka smájeppann 95.753 kílómetra, samkvæmt skoðun.

Fyrirtækið lét svo skoða þennan sama bíl í febrúar árið 2012, en þá voru skráðir kílómetrar komnir niður í 17.121, af því að skipt hafði verið um mælaborð í bílnum vegna skemmda í millitíðinni.

Síðar sama ár, í nóvember, selur fyrirtækið bílinn svo áfram til Blue Car Rental ehf. og samkvæmt afsali vegna kaupanna var bílaleigunni Blue kunnugt um að skipt hafði verið um mælaborð í bílnum. Þar var bíllinn svo notaður sem bílaleigubíll í yfir þrjú ár, þrátt fyrir að uppgefin kílómetrastaða í mælaborði bílsins hafi verið yfir 78 þúsund kílómetrum lægri en raunakstur bílsins.

Alltaf auglýstur sem mikið keyrður bíll

Sævar Sævarsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Blue Car Rental, staðfestir þetta í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is. Hann leggur þó áherslu á að þessi tiltekni bíll hafi verið skráður í sérstökum flokki sem „older model“ eða eldri árgerð, en á heimasíðu Blue er skýrt tekið fram að bílar í þeim flokki séu keyrðir yfir 100.000 kílómetra, eins og sjá má á skjáskoti hér til hér til hliðar. Bíllinn var þannig auglýstur og seldur út til neytenda í takt við raunakstur hans.

Sævar vill taka það skýrt fram, sem eðlilegt er miðað við umræðu um svindl bílaleigunnar Procar undanfarna daga að „Blue Car Rental ehf. hefur aldrei átt við kílómetramæla bíla fyrirtækisins, hvorki bílum sem ætlaðir eru til útleigu né sölubílum, né hefur verið átt við bíla með öðrum hætti sem orkað getur tvímælis eða brýtur í bága við lög um bílaleigur.”

Blaðamaður spurði einnig í fyrirspurn til Blue hvað fyrirtækinu þætti almennt um það að hægt væri að nota bíla með ranga kílómetrastöðu sem bílaleigubíla.

„Það er í sjálfu sér ekki okkar að svara en auðvitað er eðlilegast að kílómetrastaða bílsins, hvort sem hann er til leigu eða til sölu, sé rétt. Það er hagur greinarinnar í heild að blekkingum sé ekki beitt. Blue Car Rental leggur mikið upp úr öryggi og forvörnum og því er í sjálfu sér hagur okkar og viðskiptavina að bílarnir séu sem nýjastir en að þeir bílar sem eldri séu sé þá vel viðhaldið og fyllstu gæðakröfum sé gætt í þjónustu og viðhaldi. Það höfum við og munum áfram leggja áherslu á,“ segir Sævar, í svari sínu.

Bíllinn sem um ræðir er nú kominn í eigu Suzuki-umboðsins á Íslandi og er til sölu á bílauppboði á netinu hjá Króki, þar sem tekið er fram að óvissa sé um kílómetrastöðuna, sem í dag er skráð 176.026 á ökumæli bílsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert