Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, er hvött til að ljúka friðlýsingu Víkurkirkjugarðs, alveg að austustu mörkum hans, eins og þau voru árið 1838. Þetta kom fram í ályktun baráttufundar um verndun Víkurkirkjugarðs í Iðnó í dag.
Í tilkynningu vegna fundarins segir að fundarmenn hafi fylkt sér að baki Vigdísi Finnbogadóttur, Friðriki Ólafssyni og Þorgerði Ingólfsdóttur í baráttu fyrir verndun Víkurkirkjugarðs. Að fundi loknum gengu fundarmenn í Víkurkirkjugarð og sungu þar saman.
Minjastofnun Íslands tilkynnti 8. janúar að ákveðið hefði verið að skyndifriða þann hluta Víkurkirkjugarðs sem er innan byggingasvæðisins á Landssímareitnum svonefnda við Austurvöll.
Skyndifriðunin, sem tók gildi samstundis, gildir í allt að sex vikur eða þar til ráðherra hefur ákveðið hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar að fenginni tillögu Minjastofnunar. Um er að ræða austasta hluta hins forna Víkurkirkjugarðs eins og hann var er garðurinn var aflagður árið 1838. Skyndifriðunin rennur út á mánudag.