Gerður Kristný skáld og félagar í óformlegum Facebook-hópi sem kallast Ófærðarstofan leggja til að sá geðþekki lögreglumaður Ásgeir fái sína eigin sjónvarpsseríu í framhaldi af Ófærð 2. „Hann hefur unnið hug og hjörtu Ófærðarstofunnar. Við þurfum að fá að vita meira um það gæðablóð. Hverra manna er Ásgeir? Hvaðan kemur hann? Hvað ætlaði hann að elda fyrir „Elly“? Bárður hefur líka verið í miklu uppáhaldi hjá Ófærðarstofunni. Hann á sér örugglega dularfulla og reykmettaða fortíð sem fróðlegt yrði að skyggnast inn í,“ segir Gerður Kristný.
Spurð um líklegan morðingja í Ófærð 2 segir Gerður Kristný böndin berast að Stefáni. „Ófærðarstofunni finnst tilgangsleysi hans oft heldur grunsamlegt en við grunum líka þreklega vaxinn gaur sem finnst sjálfsagt að hrifsa farsíma af ljúfum og góðum laganna vörðum. Það var líka ljótt af honum að stinga hann Ásgeir okkar í kviðinn með hnífi. Nú hef ég komið til Siglufjarðar og kannast ekki við svona meðferð á fólki þar í bæ. Þetta virtust þó sömu vasklegu vinnubrögðin og Siglfirðingar vöndu sig á á síldarárunum. Færni þeirra með flökunarhníf býr enn í blóðinu.“
Nú þegar aðeins tveir þættir eru eftir af Ófærð 2 treystir Stefán Pálsson sagnfræðingur sér ekki til að giska á morðingjann. „Ætli ég láti það ekki bara koma mér á óvart. Síst af öllu fer ég að gaspra um það í fjölmiðlum,“ segir Stefán og skellir upp úr. „Svo lengi sem það reynist ekki vera dvergur sem talar aftur á bak þá verðum við aðdáendur Twin Peaks sáttir.“
Stefán kveðst þokkalega sáttur við seríuna til þessa. „Einkennandi þáttur í fyrstu seríunni var ófærðin sem slík og um leið og sagan er farin að gerast á skaplegum tíma ársins þá breytist dínamíkin í þáttunum og meira reynir á persónurnar,“ segir hann.
„Þetta hefur verið æsispennandi. Við feisbúkkvinir mínir í Ófærðarstofunni höfum rýnt saman í þættina og hlökkum til að sjá hvort það verður eitrið eða illskan sem sekkur Siglufirði,“ segir Gerður Kristný.
Nánar er fjallað um Ófærð 2 í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.