Börn eiga alltaf rétt á stuðningi og aðstoð í samræmi við stöðu sína sem börn,“ segir Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG í færslu á Facebook-síðu sinni í kvöld. Vekur Rósa Björk þar athygli á frumvarpi sínu um breytingar á útlendingalögum sem dreift var á Alþingi í dag. Þar leggur hún til að heildstætt mat verði frekar notað heldur en aldursgreiningar á borð við tanngreiningar eða annars konar líkamsrannsóknir.
„Börn og unglingar á flótta sem leita eftir alþjóðlegri vernd eru einn allra viðkvæmasti þjóðfélagshópurinn,“ segir Rósa Björk í færslu sinni.
„Aldursgreiningar á borð við tanngreiningar (eins og gert er hér á Íslandi) beinamyndatökur og jafnvel skoðun kynfæra (eins og leyfilegt er í Danmörku!) hafa verið notaðar til að greina aldur barna til að meta hvort viðkomandi einstaklingur eigi rétt á tiltekinni þjónustu í þeim löndum sem þau leita eftir vernd.“
Rósa Björk segir þessar aðferðir hafa verið gagnrýndar um árabil.
Börn eigi líka að mati hennar, Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins alltaf rétt á stuðningi og aðstoð í samræmi við stöðu sína sem börn og það sé í samræmi i við Barnasáttmála SÞ. Kveðst hún þeirrar skoðunar að „gríðarlega nauðsynlegt“ sé að viðhafa heildstætt mat með aðkomu sálfræðinga og félagsfræðinga við að meta aldur barna þannig að þau fái alltaf að njóta vafans.
„Frumvarpi mínu um að heildstætt mat verði frekar notað heldur en aldursgreiningar á borð við tanngreiningar eða annars konar líkamsrannsóknir var dreift í dag. Ég vona að Alþingi muni samþykkja þetta góða þingmál mitt. Börnum sem leita eftir alþjóðlegri vernd til heilla. Og okkur öllum sem fá þau til okkar,“ segir Rósa Björk í færslu sinni.