VR segist ekki sætta sig við að Almenna leigufélagið hafi hækkað leigu um tugþúsundir króna í einhverjum tilfellum og gefið leigjendum fjóra daga til að samþykkja hækkunina. Krefst VR þess að áformin séu dregin til baka, en að öðrum kosti ætli félagið að taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku banka, en um er að ræða 4,2 milljarða.
Kvika er eigandi fjármálafyrirtækisins Gamma og Almenna leigufélagið er í eigu sjóða Gamma. VR segir í opnu bréfi til Kviku að vegna þessa sé hótununum beint að stjórnendum Kviku banka.
Segist VR hafa séð gögn með samskiptum Almenna leigufélagsins við nokkra leigjendur þar sem án fyrirvara eða haldbærra raka sé krafist tugþúsunda hækkunar leigu og leigjendum settir þeir afarkostir að samþykkja hækkunina eða missa húsnæðið. Umhugsunarfrestur er gefinn sem fjórir dagar.
VR segir slíka hækkun gera væntar hækkanir VR í samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins að engu. „Það er varla hægt að lýsa þessu með öðrum orðum en sem grimmd, taumlausri græðgi og mannvonsku,“ segir í bréfi VR.
Ætlar félagið að veita Kviku banka fjögurra daga frest til þess að láta leigufélagið hætta við hækkunina. „Hafi það ekki verið gert innan fjögra daga mun VR taka allt sitt fé úr eignastýringu hjá Kviku banka sem er um 4,2 milljarðar króna.“