Segja árás formanns VR ómaklega

Almenna leigufélagið er með 4% markaðshlutdeild á almenna leigumarkaðnum.
Almenna leigufélagið er með 4% markaðshlutdeild á almenna leigumarkaðnum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Forsvarsmenn Almenna leigufélagsins segja félagið fagna allri umræðu um leigumarkaðinn á Íslandi og að félagið taki heilshugar undir kröfur VR og fleiri um uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði og óhagnaðardrifinna félaga líkt og Bjargs, Búseta og Félagsstofnunar stúdenta. Málflutningur Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, um Almenna leigufélagið í opnu bréfi til Kviku sé hins vegar óheppilegt innlegg í umræðuna, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Almenna leigufélaginu.

Segir í yfirlýsingunni að Almenna leigufélagið hafi árið 2017 tekið við rekstri tveggja fasteignasafna, annars vegar á Leigufélaginu Kletti, í eigu Íbúðalánasjóðs (ÍLS), og hins vegar á félaginu BK-eignum. Rekstur félaganna tveggja hafi ekki staðið undir sér og tugmilljóna tap verið af leigurekstri þeirra árið 2017.

Fá svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum

„Þegar Almenna leigufélagið tók við Leigufélaginu Kletti var það meðal skilyrða að leiguverð myndi ekki hækka næstu 12 mánuði. Vegna rekstrar- og fjármagnskostnaðar greiddi Almenna leigufélagið því háar fjárhæðir með þessum eignum,“ segir í yfirlýsingunni.

Undanfarið ár hafi Almenna leigufélagið þurft að aðlaga leigusamninga að meðalleigu á markaði svo reksturinn standi undir sér. Þetta „hefur verið gert í skrefum og í langflestum tilfellum með rúmum fyrirvara svo leigjendur fái svigrúm til að laga sig að breyttum aðstæðum“.

Leiguverð hefur þá einnig fylgt verðbólgu, fasteignagjöldum og öðrum opinberum gjöldum, sem hækkað hafa gríðarlega undanfarin ár með hækkandi fasteignamati.

Félagið hafi allt frá stofnun lagt ríka áherslu á að tryggja einstaklingum og fjölskyldum á leigumarkaði húsnæðisöryggi til langs tíma, stöðugleika og góða þjónustu að skandinavískri fyrirmynd.

Almenna leigufélagið er að því er fram kemur í tilkynningunni ekki með nema 4% markaðshlutdeild á almenna leigumarkaðnum og stýri því ekki verðmyndun á honum líkt og haldið hefur verið fram. Ennfremur hafi félagið frá stofnun aldrei greitt út arð til hluthafa.
Því séu orð formanns VR „ómakleg árás á fyrirtæki sem tekið hefur þátt í að ryðja brautina fyrir þróun skilvirks leigumarkaðar á Íslandi“.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert