Vodafone á Íslandi (SÝN) og Nordavind hafa skrifað undir samstarfssamning um að skoða samlegð með lagningu á nýjum ljósleiðarasæstreng milli Íslands og Írlands annars vegar og Írlands og Noregs hins vegar. Nordavind er norskt fyrirtæki í eigu sveitarfélaga, orkufyrirtækja og ljósleiðarafyrirtækja í Noregi.
Í tilkynningu frá Vodafone kemur fram að síðustu 2-3 árin hafi fyrirtækið unnið að verkefni með Vodafone Group um lagningu á nýjum ljósleiðarasæstreng milli Íslands og Írlands. Niðurstaða þeirrar vinnu er að best væri að leggja sæstrenginn milli Reykjaness og vesturstrandar Írlands. Nýi strengurinn mun styrkja mjög samkeppnishæfni gagnavera á Íslandi, auka öryggi í tengingum til Íslands og stytta til muna leið gagna til Bandaríkjanna.
Lendingarstaðurinn sem varð fyrir valinu á Írlandi er Killala þar sem Aqua Comms, fyrirtæki sem sérhæfir sig í ljósleiðurum í sjó, á og rekur ljósleiðarasæstrenginn AEC-1 beint til New York í Bandaríkjunum. Vodafone hefur á sama tíma átt í viðræðum við norska félagið Nordavind sem hefur í hyggju að leggja ljósleiðara frá Þrándheimi í Noregi til Killala undir verkefnaheitinu Celtic Norse.
„Þegar við fórum að ræða við Nordavind sáu báðir aðilar mikil tækifæri í samstarfi verkefnanna. Um sömu leið í sjó er að ræða fyrir umtalsverðan hluta strengjanna sem býr til möguleika á umtalsverðri hagkvæmni við lagningu strengjanna. Einnig voru bæði fyrirtækin sammála um að um einstakt tækifæri væri að ræða til þess að koma á góðri ljósleiðaratengingu milli frændþjóðanna Íslands og Noregs sem hafa augljósa kosti sem hýsingarstaðir fyrir gagnaver,“ er haft eftir Þorvarði Sveinssyni, rekstrarstjóra Sýnar sem rekur Vodafone, í tilkynningu.
Þar kemur einnig fram að stjórnvöld hafi ákveðið að hefja stuðning við verkefni sem þetta með því að láta framkvæma könnun á sjávarbotni á nýjum streng til Evrópu.