Ekki til að liðka fyrir kjaraviðræðum

Drífa á fundinum í höfuðstöðvum ASÍ í dag.
Drífa á fundinum í höfuðstöðvum ASÍ í dag. mbl.is/​Hari

„Það var full eining í samninganefnd ASÍ um að tillögur stjórnvalda hafi verið mikil vonbrigði. Við teljum þetta ekki verða til þess að liðka fyrir þeim kjaraviðræðum sem eru í gangi,“ sagði Drífa Snædal, formaður ASÍ, þegar blaðamaður mbl.is náði af henni tali eftir fund samninganefndar ASÍ þar sem Drífa fór yfir tillögur sem stjórnvöld kynntu fyrir forsetum ASÍ og fleiri aðilum vinnumarkaðarins í Stjórnarráðinu í dag.

Efling, VR, Verkalýðsfélag Akraness og Verkalýðsfélag Grindavíkur hafa þegar lýst yfir sárum vonbrigðum með tillögurnar.

„Nú þarf hver hópur að ákveða næstu skref í viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins, en það er ljóst að það sem við vonuðumst til að myndi gerast í dag, að liðkað yrði fyrir áframhaldandi samningaviðræðum, gerðist ekki,“ segir Drífa. „Við áttum von á því að ríkisstjórnin myndi sýna því meiri skilning að það þyrfti að bæta kjör ákveðinna hópa en raun ber vitni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert