„Það er gott að vita að eitthvað er að gerast í þessum málum. Við höfum haft meiri áhyggjur af því að lítið væri að gerast. Svo verður að koma í ljós hvað verður í framhaldinu.“
Þetta segir Páll Jóhann Pálsson, formaður Fjarskiptasjóðs, um samning Vodafone á Íslandi við norska aðila um að skoða samlegð við lagningu á nýjum fjarskiptasæstreng frá Noregi og Íslandi til Írlands.
Vodafone á Íslandi (SÝN) tilkynnti þennan samning við norska fyrirtækið Nordavind í gær. Áformað er að leggja Íslandsstrenginn frá Reykjanesi til vesturstrandar Írlands og Noregsstrenginn frá Þrándheimi til sama lendingarstaðar. Strengirnir gætu legið saman síðasta spölinn.
Farice, sem rekur strengina sem tengja Ísland við Evrópu, Farice-1 og Danice, er að undirbúa kortlagningu sjávarbotnsins og aðrar forrannsóknir við lagningu nýs fjarskiptastrengs á þessari sömu leið. Tók fyrirtækið verkið að sér fyrir Fjarskiptasjóð sem leggur í það um 260 milljónir króna.