Kvörtun fjögurra félaga gegn lögmanninum Sveini Andra Sveinssyni verður tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun, en félögin telja að Sveinn Andri hafi ekki sem skiptastjóri þrotabúsins EK1923 upplýst kröfuhafa um mikinn áfallinn kostnað, meðal annars vegna málshöfðana gegn fyrrverandi eiganda félagsins og félaga í hans eigu.
Félögin fjögur sem um er að ræða eru Mjólkursamsalan, Sláturfélag Suðurlands, lögmannsstofan BBA Legal og Stjarnan, en síðastnefnda félagið er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar, sem oft er kenndur við Subway. Skúli var jafnframt eigandi EK1923 og hefur Sveinn Andri rekið mál gegn honum og félögum honum tengdum undanfarið.
Sveinn Andri hafnar ásökunum í kvörtuninni og segir stærstan hluta kröfuhafa standa á bak við málaferlin og þann kostnað sem hafi verið lagt í og að um sé að ræða hagsmunaárekstur og vanhæfi af hálfu lögmanns kröfuhafanna fjögurra.
Í kvörtun félaganna sem send var á héraðsdóm kemur fram að ástæða kvörtunarinnar sé einkum að Sveinn Andri hafi staðið sig illa í að upplýsa kröfuhafa um tilfallinn kostnað. Kemur fram að kostnaður búsins hafi verið kominn upp í 98,4 milljónir í apríl 2018, en á sama tíma voru eignir þess taldar nema 104,3 milljónum. „Kostnaður búsins var þannig kominn í sömu fjárhæð og eignir búsins þann 30. apríl 2018, þ.e. rétt um 100 m.kr.“ segir í kvörtuninni.
Þá er sagt ljóst að gjöld búsins séu komin langt umfram eignir þess þegar bréfið er skrifað, en það er dagsett 2. janúar. Telja félögin að Sveinn Andri hafi þegar farið verulega fram úr þeim fjölda vinnustunda sem kröfuhafar hafi mátt vænta, „og í raun með ólíkindum útí hversu mikinn kostnað er búið að leggja án samráðs við kröfuhafa,“ segir í kvörtuninni. Samkvæmt yfirlitum sem kröfuhafarnir hafa fengið nema vinnustundirnar samtals 2.408 klukkustundum árin 2016-2018, en það nemur 301 átta stunda vinnudegi.
Kröfuhafarnir gagnrýna sérstaklega það tímagjald sem Sveinn Andri hafi reiknað sér, en það nam með virðisaukaskatti 43.400 krónum á tímann árið 2016, en 49.600 krónum árin 2017 og 2018. Er heildarskiptaþóknun fyrir árið 2016 16,2 milljónir, fyrir árið 2017 49,7 milljónir og 13,8 milljónir fyrir árið 2018. Samtals er því um að ræða um 80 milljónir, en þar af er ekki allt fyrir árið 2018 gjaldfært og telja kröfuhafar heildarupphæðina vera nær 120 milljónum miðað við tímafjölda sem Sveinn Andri hefur lagt fyrir. Þá er annar skiptakostnaður sagður um 18 milljónir.
EK1923 er þrotabú heildsölunnar Eggerts Kristjánssonar ehf. og var keypt árið 2013 af Skúla. Síðar varð félagið birgir fyrir Stjörnuna sem er rekstrarfélag Subway. Félagið fór síðar í þrot og höfðaði Sveinn Andri nokkur mál gegn Skúla og félögum tengdum honum.
Þannig var Stjarnan dæmd til að greiða EK1923 15 milljónir í Landsrétti í desember eftir að Landsréttur rifti framsali á kröfu EK1923 á hendur íslenska ríkinu til Stjörnunnar. Í sama mánuði var Skúli dæmdur til að greiða 2,3 milljónir í skaðabætur fyrir að hafa gefið fyrirmæli um greiðslu skuldar EK1923 þegar félagið var orðið ógjaldfært. Mátti ráða að Skúli hefði viðskiptalega hagsmuni af því uppgjöri.
Þá var annað félag í eigu Skúla, Sjöstjarnan ehf., einnig dæmt í desember til að greiða annars vegar 223 milljónir eftir að héraðsdómur rifti greiðslu félagsins og hins vegar 21 milljón. Uppreiknað með vöxtum nema kröfurnar rúmlega 400 milljónum.
Sveinn Andri segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða litla kröfuhafa og í einu tilfelli kröfuhafa sem deilt sé um hvort eigi í raun kröfu á félagið. Þá séu þeir allir tengdir Skúla, sem þrotabúið sé að takast á við.
Sveinn Andri segir að BBA Legal sé lögmannsstofa Skúla og að þeir hafi meðal annars verið eini kröfuhafinn sem andmælti því að kæra Skúla og Guðmund Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóra EK1923, til héraðssaksóknara.
Í tilfelli Mjólkursamsölunnar og Sláturfélags Suðurlands segir Sveinn að þau hafi nýlega flutt sig yfir til lögmannsins Heiðars Ásbergs hjá lögmannsstofunni Logos. Hann sé jafnframt lögmaður Sjöstjörnunnar, sem sé gagnaðili EK1923 í stóra dómsmálinu sem varðar um 400 milljónir og var dæmt í síðasta desember í héraðsdómi. Bíður málið nú þess að vera þingfest í Landsrétti. Sveinn segir þetta skýrt dæmi um hagsmunaárekstur og vanhæfi. „Það er engin rökræn skýring á því af hverju mótaðili búsins sé farinn að vinna fyrir tvo kröfuhafa,“ segir hann og telur að helst megi skýra það með vináttu forstjóra Mjólkursamsölunnar og Skúla.
Í tilfelli Stjörnunnar segir Sveinn að krafan þar hafi ekki komið til fyrr en í desember eftir dóm Landsréttar þegar greiðslu EK1923 til Stjörnunnar var rift. Þá hafi félagið gert kröfu, sem skiptastjóri hafi reyndar ekki samþykkt og nú sé deilt um. Félagið hafi því í raun ekki verið kröfuhafi meðan stærstur hluti málanna hefur verið rekinn.
Í heild eru kröfur þessara fjögurra félaga um 19 milljónir af samtals 300 milljónum. Segir Sveinn að á síðasta skiptafundi hafi fulltrúar 75% kröfuhafa bókað að þeir teldu ekki ástæðu til að finna að framgöngu skiptastjóra. Segir Sveinn að ætlunin hafi alltaf verið að fara með stóra málið (EK1923 gegn Sjöstjörnunni) alla leið og ef það fari eins í Landsrétti og héraðsdómi megi búast við að heimtur verði 100%.
Spurður út í hátt tímagjald sem kröfuhafarnir fjórir vísa til í kvörtun sinni segir Sveinn að gjaldskrá eiganda lögfræðistofa nái frá 21 þúsund krónum upp í 54 þúsund krónur á tímann. Hann sé því ofarlega þar, en ekki í hæsta flokki og innan allra marka.