Sækja áfram að fullu fram til SA

Sólveig Anna mun ekki gefa Samtökum atvinnulífsins neitt eftir í …
Sólveig Anna mun ekki gefa Samtökum atvinnulífsins neitt eftir í viðræðunum. mbl.is/​Hari

Formaður Eflingar ætlar ekki að segja til um hvort hún sjái fram á að viðræðum félagsins og þriggja annarra stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins verði slitið á næsta fundi fyrr en hún hefur fundað með samninganefnd félagsins. Hún segir þó ljóst að staðan í viðræðunum sé orðin mjög erfið.

„Mín afstaða hefur aldrei verið sú að eitthvað útspil stjórnvalda myndi losa Samtök atvinnulífsins undan þeirri ábyrgð og þeirri skyldu sem þau bera á því að borga fólki mannsæmandi laun fyrir unna vinnu, en auðvitað er öllum ljóst að það sem stjórnvöld hefðu getað komið með til handa okkar fólki hefði getað hjálpað til við úrlausn deilunnar,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eftir fund með samninganefnd ASÍ um tillögur stjórnvalda sem lagðar voru fyrir forseta ASÍ í dag og var ætlað að liðka fyrir kjarasamningsgerð.

„Auðvitað sækjum við að fullu fram til Samtaka atvinnulífsins,“ segir Sólveig Anna.

Efling, VR, VLFA og VLFG hafa þegar lýst yfir sárum vonbrigðum með tillögurnar og segist Sólveig Anna ekki eiga von á öðru en að hennar félagsmenn verði sama sinnis.

Tillaga um lækkun tekjuskatts skammarleg

„Það vantar mikið upp á. Sem dæmi er upphæðin sem nefnd er varðandi lækkun á tekjuskatti ótrúlega lítil. Ef við horfumst í augu við þær aðstæður sem láglaunafólki eru búnar á Íslandi þá er augljóst að upphæðin er skammarleg.“

Næsti fundur stéttarfélaganna fjögurra með SA fer fram hjá ríkissáttasemjara á fimmtudag og höfðu vonir verið bundnar við tillögur stjórnvalda til þess að hleypa glæðum í samræðurnar. Ákveðin pattstaða var komin upp eftir að félögin höfnuðu tilboði SA og SA hafnaði móttilboði félaganna.

Aðspurð segist Sólveig Anna þó ekki ætla að segja til um það hvort hún sjái fram á að viðræðum verði slitið á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert