Fjórmenningar með umboð til að slíta

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Vilhjálmur Birgisson, formaður Verka­lýðsfé­lags Akra­ness, og Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, hafa öll fengið umboð til þess að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Samsett mynd

Formenn Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur hafa allir fengið umboð frá sínum félögum til þess að slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA). Félögin munu funda með SA á morgun og í kjölfar þess fundar munu stéttarfélögin funda um hvort skuli boða til verkfalls.

VR

Á fundi samninganefndar VR í kvöld fékk Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, umboð til þess að slíta viðræðum við SA. Í samtali við mbl.is segir formaðurinn afstöðu samninganefndar VR vera alveg skýra.

„Eins og staðan er í dag mun eitthvað meira þurfa að koma til,“ segir Ragnar Þór um möguleikana til þess að komast hjá verkföllum. Hann segir þó ekkert vera ákveðið með framhaldið fyrr en eftir fundinn með SA.

Hann segir jafnframt félögin fjögur ætla að hittast fyrir fundinn með SA og stilla saman strengi.

Efling

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, staðfesti í kvöldfréttum RÚV í kvöld að hún væri komin með umboð frá sínum félagsmönnum til að slíta viðræðunum. Þá kvaðst hún ekki búast við því að fá nýtt tilboð frá SA á fundi þeirra á morgun.

VLFA

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, staðfestir að hann hafi fengið umboð til þess að slíta viðræðum í samtali við mbl.is.

„Að sjálfsögðu munum við bara rýna í stöðuna og eins og kom fram í viðtali við Sólveigu Önnu áðan á RÚV þá erum við að sjálfsögðu búin að teikna upp sviðsmyndir í þessum málum. Við eigum þó fundinn eftir og við verðum að sjá hvernig hann endar,“ segir Vilhjálmur, spurður hvort ákvörðun verður tekin um verkfall á morgun.

VLFG

„Ég hef heimild til þess að gera það,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur, í samtali við mbl.is spurður hvort hann hafi fengið umboð til þess að slíta viðræðum.

Hann segir samninganefnd félagsins ætla að funda annað kvöld klukkan átta um framhald viðræðna, í kjölfar fundarins með SA.

Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.
Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert