Geta ekki orðið grundvöllur sátta

Drífa Snædal forseti ASÍ.
Drífa Snædal forseti ASÍ. mbl.is/Valli

Miðstjórn ASÍ lýsir verulegum vonbrigðum með þau áform um breytingar á skattkerfinu sem fjármálaráðherra kynnti í gær.

„Tillögurnar mæta engan veginn kröfum verkalýðshreyfingarinnar um tekjujöfnunar- og tekjuöflunarhlutverk skattkerfisins og geta að óbreyttu ekki orðið grundvöllur sátta í samfélaginu,“ segir í ályktun miðstjórnar.

Fram kemur að tillögur stjórnvalda byggi á því að létta skattbyrði allra tekjuhópa og auka ráðstöfunartekjur láglaunafólks og bankastjóra um sömu krónutölu. „Stór hluti af því „svigrúmi“ sem fjármálaráðherra telur til skattalækkana er þannig nýtt til að lækka skatta á tekjuhæstu hópana þvert gegn því sem kallað er eftir í samfélaginu.“

Gagnrýnt er að engin áform séu uppi um að auka stuðning við barnafjölskyldur og endurreisa vaxtabótakerfið. Stjórnvöld virðist ekki ætla að styrkja aðra tekjustofna samhliða skattkerfisbreytingunni, til dæmis með upptöku hátekjuskatts, auðlegðarskatti, hækkun fjármagnstekjuskatts eða afgjaldi fyrir auðlindanýtingu. Fyrir vikið verði minna til ráðstöfunar til brýnna úrbóta t.d. í velferðarkerfinu og samgöngumálum.

„Launafólk mun aldrei sætta sig við skattkerfisbreytingar sem það borgar sjálft fyrir með veikara velferðarkerfi, verri innviðum og auknum nefsköttum. Slík stefna hefur verið viðhöfð um langt skeið og kemur alltaf verst niður á þeim tekjulægstu. Launafólk vill sanngjarnt skattkerfi sem eykur jöfnuð og fjármagnar velferð,“ segir í ályktuninni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert