Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands mun eiga samningafund með Samtökum atvinnulífsins kl. 16 í dag. Á fundinum verða kröfur SGS ítrekaðar. Þetta er niðurstaða fundar SGS sem er nýlokið.
Að sögn Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra sambandsins, samþykkti nefndin að fá fund með SA í dag „í ljósi útspils stjórnvalda í gær og hversu rýrt það er“. Þar verða ítrekaðar „sanngjarnar og eðlilegar kröfur SGS“.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um að vísa deilunni til ríkissáttasemjara. „Við skulum sjá hvað þau segja fyrst,“ sagði Flosi að loknum fundinum.
„Það er góð samstaða í okkar hópi og menn eru að sækja sínar réttmætu kröfur en það voru mjög mikil vonbrigði með útspil ríkisstjórnarinnar. 6.700 króna skattalækkun á mánuði er afar rýrt, svo ekki sé meira sagt.“