Hæstiréttur hafnaði í morgun endurupptöku á svokölluðu „shaken-baby“-máli. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Sigurðar Guðmundssonar sem dæmdur var fyrir að hafa valdið dauða ungbarns á daggæslu í Kópavogi árið 2001, segir það miður að málið komist ekki til efnislegrar meðferðar. Sigurður var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna.
Endurupptökunefnd samþykkti árið 2015 beiðni Sigurðar um endurupptöku 18 mánaða dóms sem hann hlaut í Hæstarétti í apríl 2003 fyrir að eiga að hafa verið valdur dauða níu mánaða barns með því að hrista það. Byggði nefndin ákvörðun sína á niðurstöðu dómkvadds matsmanns, dr. Waney Squier, og umsögn réttarmeinafræðingsins Þóru Steffensen sem krufði barnið á sínum tíma. Ríkissaksóknari hefur dregið þá niðurstöðu í efa.
Eftir að ákvörðun Hæstaréttar lá fyrir sagði Sveinn Andri að það sé hins vegar engin ástæða til að stoppa núna. Næstu skref eru hins vegar óákveðin að hans sögn en hann á eftir að kynna sér úrskurðinn í heild sinni.
Sakarkostnaður vegna málsins, alls þrjár milljónir króna, greiðist úr ríkissjóði.