630 milljónir í geðheilbrigðismál

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Það sem að við erum að gera með þessari ákvörðun er að styrkja geðheilbrigðisþjónustuna í fremstu línu heilbrigðisþjónustunnar,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún gerði í dag grein fyrir 630 milljóna króna úthlutun til að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu.

Fénu verður annars vegar varið til að efla fyrsta stigs þjónustu heilsugæslunnar með aukinni aðkomu sálfræðinga og hins vegar til að efla sérhæfðari þjónustu (annars stigs heilbrigðisþjónustu) á sviði geðheilbrigðismála með áframhaldandi uppbyggingu geðheilsuteyma í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Geðheilsuteymi eru ætluð þeim sem þurfa meiri og sérhæfðari þjónustu en veitt er á heilsugæslustöðvum.

Fjármunirnir skiptast á eftirfarandi hátt:

Sálfræðingar á höfuðborgarsvæði 45 milljónir
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins 322 milljónir
Heilbrigðisstofnun Vesturlands 46 milljónir
Heilbrigðisstofnun Vestfjarða 21 milljón
Heilbrigðisstofnun Norðurlands 50 milljónir
Heilbrigðisstofnun Austurlands 35 milljónir
Heilbrigðisstofnun Suðurlands 58 milljónir
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja 53 milljónir

Öflug framlína sem fyrsti viðkomustaður

Svandís segir gríðarlega mikilvægt að heilsugæslan, alveg sama hvort hún sé á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi, geti sinnt bæði andlegum og líkamlegum veikindum. „Það skiptir mjög miklu máli að við séum með öfluga framlínu sem fyrsta viðkomustað,“ segir Svandís.

Spurð um aðra þætti geðheilbrigðisþjónustunnar nefnir Svandís ákvörðun sína að fela Landspítala að sinna börnum og ungmennum í fíknivanda. Undirbúningur að því er farinn af stað.

Það er partur af þessari viðleitni til að búa heildstæða mynd af okkar heilbrigðiskerfi, að það sé ekki brotakennt heldur samfellt. Við höfum verið með það þannig til skamms tíma að þjónusta við þá sem eru að glíma við ávana og fíkn hefur verið jaðarsett í heilbrigðisþjónustunni. Þarna erum við að stíga mikilvægt skref í því að það sé partur af þriðja stigs þjónustu að sinna börnum og ungmennum í fíknivanda.

Ráðherra segir að það skipti miklu máli að andleg heilsa eigi að vera hluti af sýn á alla sjúklinga. „Ég veit að þessi sýn hefur farið vaxandi undanfarin ár. Við þurfum að gera betur í þessu en við þurfum líka að gera betur í því að draga notendur að borðinu,“ segir Svandís.

Samráð við notendur geðheilbrigðisþjónustu

Hún nefnir að ráðuneytið hafi komið á fót föstum vettvangi notenda geðheilbrigðisþjónustu og þeim sem hafa reynslu af henni til að hafa samráð og samtal um þróun þjónustunnar. „Það er í samræmi við þær alþjóðlegu áherslur sem við erum að sjá.

Svandís hélt stutt erindi þegar úthlutunin var kynnt í húsnæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu í dag. Þar fjallaði hún meðal annars um hversu mikilvægur svefn væri. Hún sagði svefn ekki eina af forsendum þess að fólki líði vel líkamlega og andlega, heldur grunnforsendu.

Þú bjargar ekki svefnleysi með góðu mataræði og hreyfingu. Ef þú býrð við svefnleysi er það vandamál sem þú verður að leysa. Þess vegna þurfum við að vera duglegri við að spyrja að því fyrst, okkur sjálf og aðra, horfa til þess hvort við séum að fá reglulega, góðan og jafnan svefn. Byrja á því að laga það og svo getur maður farið að laga aðra hluti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert